Komin heim eftir Króksmót !

Um helgina varði fjölskyldan í Hólalandinu helginni á Sauðárkróki á Króksmóti. Þetta er orðinn árlegur viðburður, annað skipti sem við förum og Dýrunn skellti sér með þetta árið.  Lögðum land undir fót á fimmtudagseftirmiðdegi með grána gamla í eftirdragi og gistum á Akureyri.  Vorum komin á Krók um tvöleytið á föstudag og fengum fínt tjaldpláss á svæðinu þar sem flestir úr Fjarðabyggð tjölduðu.

Það er alltaf yndislegt að koma á Krókinn og mér finnst ég alltaf svolítið vera að koma "heim" og fer í smá nostalgíu fíling að hugsa til vetranna tveggja sem ég dvaldi þar í Fjölbrautaskólanum sem eru án efa einn skemmtilegasti tími í mínu lífi.

Mótið hófst snemma á laugardag með skrúðgöngu að sjálfsögðu og þar skartaði Fjarðabyggð rosalega flottum hóp, allir í nýju Fjarðabyggðagöllunum og ekkert smá flottir. Þetta voru aðallega strákar nema í yngsta flokknum og eldri dömurnar kepptu á pæjumóti á Siglufirði.  

Nú svo hófst fyrsti leikur og því miður lagði hann línurnar um framhaldið. Liðið þeirra var ekki nógu sterkt til að vera B lið og úrslitin urðu eftir því. Það féllu því mörg tár þann daginn og það var  nokkuð niðurbrotinn náungi sem settist inn í tjaldvagn eftir leikinn og sagði "ég er hættur". 

Eftir sundferð í Varmahlíð og ís á eftir var hann búinn að hrista þetta af sér og skemmti sér hið besta á kvöldvökunni um kvöldið þar sem Gunni og Felix skemmtu. 

Á sunnudag var meiri barátta í þeim og töpin urðu ekki eins stór og sár, skrápurinn orðinn harðari og þeir gáfust ekkert upp.

Þetta er eitthvað sem þarf að huga betur að og sameinast um að koma þessum strákum á fleiri samæfingar svo þeir fái líka spilareynslu saman.  Ég trúi því að það komist í markvissara horf í framhaldinu. Við búum við það fámenni hér á Stf að ekki er hægt að halda úti æfingum fyrir þessa flokka og stundum erfitt að koma því inn í stundaskrána að vetrinum til að keyra á næstu firði en þetta skýrist allt með haustinu hvernig skipulagið verður í vetur. 

Heim keyrðum við seinnipartinn með viðkomu í kvöldmat á Akureyri og skriðum í ból rúmlega hálf eitt í nótt, ósköp þreytt.  Þrátt fyrir stórtap var kappinn þannig lagað ánægður með helgina, Dýrunn hæstánægð að hafa komist í útilegu og allir vel útiteknir eftir sólina á Króknum.

Læt fylgja smá sýnishorn af helginni.....Króksmót2008 002Króksmót2008 003Króksmót2008 005Króksmót2008 023


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Æi, ég veit.. Það er ömurlega leiðinlegt að tapa og hvað þá leik eftir leik. En þar kemur líka inní að okkar lið hafa svo lítið spilað saman, svo ekki er hægt að ætlast til að allt gangi upp þegar á mót er komið. En eins og Viktor sagði: Það var allt Agnari að þakka að við unnum leikina seinni daginn, því hann sagði við okkur að málið væri bara að hafa gaman af að vera með og ekki vera stressaðir yfir þessu. Við ákváðum bara að vera rólegir og skemmta okkur konunglega í leikjunum og þá unnum við bara alla leikina eftir það!! Ps.. ég hugsaði oft til ykkar allra á Króknum og vildi svo gjarnan hafa verið með ykkur því mér finnst þetta líka geggjað gaman!!

Hanna Björk (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband