Frábær þjálfun og mikill sviti í Barcelona
Sunnudagur, 22. júní 2008
Hæhó... Nú er þjálfuninni minni á Extravaganza lokið og stefnan verður tekin á Ísland seint annað kvöld (mánudag).
Við komum til Barcelona á föstudag og fyrsta mál á dagskrá var að finna hótelið okkar. Hér á hótelinu (ef hótel skyldi kalla, að minnsta kosti þak yfir höfuðið með mjög fornri loftræstingu sem reyndist ágætist þvottaþurrkari) voru tvær Herbafjölskyldur ásamt okkur og við komum saman frá Tossa de Mar.
Fyrsta verk var að finna höllina, hún er í 20 mín göngufæri frá hótelinu og þangað örkuðum við í hitanum, með viðkomu í rándýrri útisjoppu sem selur grimmt enda rosalega mikið af ferðamönnum á þessu svæði. Röðin í skráningu var löng en gekk fljótt fyrir sig og skráningin gekk líka vel. Síðan skyldu leiðir og við tókum lestina niður á Römblu þar sem við römbuðum um, fengum okkur að eta því smáfólkið var skelfilega svangt og þar voru gæði matarins ekki í samræmi við verðið ónei. Við stöldruðum stutt við og fórum upp á spænska torgið sem er rétt hjá hótelinu okkar og horfðum á þegar gosbrunnurinn var settur í gang með tilheyrandi ljósashowi og tónlist, rosalega fallegt. Set inn myndir síðar.
Laugardagurinn var tekinn mjög snemma og við vorum mætt upp á ólympíuleikvanginn klukkan sjö og 20 mín yfir hófst 5K hlaupið sem er styrktarhlaup sem Herbalife heldur og styrkir fátæk börn.
Planið var að Dýrunn og Friðrik hlypu með mér en þegar upp var staðið fór Dýrunn einn hring með pabba sínum á leikvanginum og Svanhildi frá Eskifirði. Við Friðrik hins vegar hlupum hringinn og svo drjúgan hring úti, komum aftur á leikvanginn og þá hefði ég verið til í að hætta, hlupum annan hring úti, svo aftur á leikvanginum og tókum glæsilegan endasprett í mark. Reyndar sá ég á myndunum að það mætti bæta hlaupastílinn. Í fyrra sló ég persónulegt met og hljóp 5km í Köln en núna bætti ég um betur því þessir fimm km voru sex þegar upp var staðið og þetta hlupum við Friðrik alla leið. Stundum urðum við ósköp þreytt en peppuðum hvort annað áfram því við ætluðum ekki að gefast upp. Hversu lengi ég get haldið í við hann veit ég ekki en ég þarf þá að fara að æfa á fullu hehe en þess má geta að ég er ekki í neinu hlaupaformi.
Ég var mjög stolt af honum og þetta var mikið upplifelsi fyrir hann. Þegar við vorum pungsveitt að hlaupa síðasta hringinn okkar úti við segir hann allt í einu "Helvíti er ég ánægður með þetta Herbalifefólk", "nú" stundi ég "af hverju?" " Jú, það er svo duglegt að hreyfa sig og svo er það flest frekar grannt og svoleiðis". Já eins gott að maður fari að standa undir þessu merki.
Nú þegar hlaupið var búið var sprettur upp á hótel, skyndisturta og svo fórum við sem vorum á leið á ráðstefnuna aftur upp í höll. Svitinn bogaði sem sagt enn af okkur þegar í höllina var komið og á öllum myndum er ég eins og glansandi grís hehe.
Þjálfunin á laugardag var mögnuð, hvert stórstirnið á fætur öðru sem fræddi okkur og hlóð sjálfstrausti á tankinn. Ekki á hverjum degi sem maður fær m.a. þjálfun frá Nóbelsverðlaunahafa, ónei og hann kom manni heldur betur til að hugsa um hjartaheilsuna sína.
Ný vara á leiðinni..... og líka til Íslands..... segi síðar frá því en við fengum hana öll til að prufa áður en hún kemur í ágúst. Mjög spennandi.
Jósef og krakkarnir skoðuðu neðanjarðarlestarkerfið og þvældust út og suður, fóru í dýragarð og ýmislegt fleira. Þau biðu eftir mér á hótelinu og við snæddum saman hér rétt við hótelið. Líklega ódýrasta máltíðin í ferðinni og alveg ljómandi góð. Það er nefnilega ekki svo ódýrt að snæða hér á Spáni. Hvað um það. Síðan var skriðið í háttinn því dagurinn skyldi líka tekinn snemma í dag.
Þjálfunin byrjaði klukkan níu og það var heljarinnar stuð. Um tvöleytið komu krakkarnir og Jósef inn og það var þokkalegt upplifelsi fyrir þau að sjá þetta allt saman. Dýrunn hafði séð fyrir sér svið og stóla fyrir framan en það var gott betra en það, 17 þúsund manns syngjandi og fagnandi er alveg töluvert. Þau voru nú svolítið þreytt að hlusta á síðustu ræðumenn enda skildu þau ekki mikið í enskunni. Fannst þetta engu að síður spennandi og gaman að geta leyft þeim að sjá hvað ég er að upplifa.
Eftir þjálfun röltum við sveitt heim og enn var rúmlega 30 stiga hiti og hann hefur ekki farið undir það alla helgina og í gær fann Jósef mæli sem sýndi 39 gráður, já ekki skrýtið að maður skuli svitna. Við snæddum aftur á sama stað og í gær og nú með Herba vinum okkar af hótelinu, svo skyldu leiðir, Díana og co. til Tossa, Halldóra og co. til Ísl. í nótt og við svo á morgun. Við höfum heilan dag í borginni á morgun og ætlum m.a. að skoða dómkirkjuna, eigum eftir að finna út hvar við geymum töskurnar, ekki gott að dröslast með þær í hitanum um bæinn.
Strákarnir (Friðrik og Jósef) fóru á bar að horfa á Spán-Ítalíu í boltanum og ég vona að þeir komi með vatn því birgðirnar okkar eru búnar og þorstinn sækir á.
Nú ætla ég að leita að nettengingu svo ég geti sent þetta í loftið, myndir koma síðar ...... Adios.....
Athugasemdir
Þetta hefur verið meiriháttar reisa.Skemmtilegar myndir.
Sigurjón. (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 22:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.