Stórtónleikar, Króksmót og fjölgun á heimilinu...
Þriðjudagur, 14. ágúst 2007
Já það hefur svo sannarlega verið nóg á dagskránni síðustu daga hjá familíunni. Á fimmtudagskvöld fórum við á Stórtónleika í íþróttahúsinu hér á Stöðvarfirði. Þeir voru haldnir til að styrkja Guðgeir Fannar og fjölskyldu hans til farar til Boston þar sem Guðgeir þarf að fara í hjartaaðgerð. Á tónleikunum stigu á stokk hver listamaðurinn á fætur öðrum og allir höfðu sinn sjarma. Allir gáfu þeir vinnu sína og höfðu margir hverjir komið langt að. K.K. og félagar enduðu geimið og þar var mætt einvala lið frábærra tónlistarmanna. Ég sat þarna með tárin í augunum í lokin, hrærð yfir þessu öllu saman og með þá von í brjósti að þetta gangi vel hjá þeim þarna úti. Mér finnst ég eiga töluvert mikið í honum Gugga því við höfum fylgst að í skólanum frá því hann var í öðrum bekk, utan tvo vetur meðan ég var í barnsburðarleyfi. Búin að sjá þennan baráttujaxl berjast áfram og vaxa og þroskast. Aldrei gefist upp og alltaf nóg að spjalla um fótbolta eða heimsmálin, stundum gleymdust námsbækurnar í spjallinu en það er önnur saga.
Ég tek ofan fyrir ykkur sem stóðuð að tónleikunum, Björgvin Val og vinum Gugga hér á Stf. Húrra fyrir ykkur, þið megið vera stoltir af góðu framtaki.
Á föstudag brunaði fjölskyldan norður á bóginn. Núna með teppi og hlýjan fatnað í töskunum. Leiðin lá á Króksmótið á Sauðárkróki. Tekið var stopp á Akureyri, fundin skólataska handa Dýrunni og þær tvær skildar eftir hjá Begga og Dóru því hún gat ekki hugsað sér að fara á fótboltamót, minnug þess að bíða í belgningnum á Húsasmiðjumótinu fyrr í sumar og þetta átti að vera í tvo daga.
Það var mikill spenningur í mínum manni. Við fengum gistingu hjá skólasystur minni og vinkonu frá því ég var á Króknum og þar gekk elsta barnið úr rúmi fyrir okkur hjónakornin. Ástarþakkir Anna og Siddi Friðrik ætlaði sér að gista í skólanum sem og hann gerði. Það gekk allt saman vel.
Á laugardegi keppti liðið hans, Fjarðabyggð 3 leiki en hann var í 7flokki b riðli. Þeir unnu fyrstu tvo leikina en töpuðu þeim þriðja. Á sunnudag voru leikirnir tveir og sá fyrri var jafntefli og þeir töpuðu seinni leiknum. Það var mikið hrópað og stunið á hliðarlínunni þegar náðist ekki að nýta dauðafæri leikjarins. Þeir voru að sjálfsögðu miklu betri hehe. Svo kepptu þeir til úrslita og náðu fimmta sæti í sínum flokki, þriðja sæti í riðlinum. Friðrik náði meira að segja að setja eitt mark og var að vonum mjög glaður. Honum hefur farið mikið fram frá því hann hóf fótboltaiðkun sína í sumar og vonandi að það haldist áfram.
Mótið var í alla staði mjög fínt, allt þrælskipulagt og gekk eins og smurt þrátt fyrir um 1100 þátttakendur og töluverðan slatta af foreldrum líka. Á laugardagskvöld var kvöldvaka og þar fór Björgvin Franz á kostum. Veðrið var frekar svalt, suddi á laugardag en nokkur kyrrt en vindur og sólskin á sunnudag svo maður var þokkalega vindbarinn eftir helgina og var í dúnúlpunni með húfu og lopavettlingana alla helgina. En hér sést liðið eftir lokaleikinn.
Meðan á síðasta leiknum stóð fengum við þær upplýsingar að kisa væri farin af stað í fæðingu. Áslaug sys. var á fæðingarvaktinni. Hún eignaðist tvo en annar var eitthvað ekki í lagi og dó fljótt. Við flýttum okkur því heim á leið strax eftir mótið, tókum samt smá stopp á Akureyri og lögðum okkur í klukkutíma. Við vorum komin heim upp úr miðnætti. Þar tók nýbakaða móðirin á móti okkur þreytt eftir fæðinguna. Sá stutti er mjög sprækur og verður örugglega efnilegur í gardínunum og öllu þegar fram líða stundir. Hún er samt svolítið að leita að hinum og er ekki alveg að fatta þetta. Hún er frekar stygg greyið þegar barnahávaði er annars vegar og þar sem húsið er nú oft fullt af börnum fá þau að dvelja niðri í holi svo hún fari ekki á taugum. Við erum nokkuð viss um að þetta sé strákur og Friðrik og Dýrunn fengu að gefa honum nafn. Þau voru ekki í vandræðum, Sólmundur skyldi hann heita og má stóri frændi í Keflavík vera stoltur af að fá svona flottan nafna, grábröndóttan í hvítum sokkum. Hérna sjáið þið þau mæðginin.
Hún vildi fyrst bara vera í sófanum en þar sem Sóli litli er farinn að brölta mikið létum við kassann í sófann með réttu handklæði og öllu saman. Ekki leist henni vel á það og tók þann stutta og fór með hann undir hjónarúm. Dýrunn skreið undir rúm og sótti kettlinginn og þá kom kisa á eftir. Hún sætti sig við kassann þegar við vorum búin að færa þau niður og er þar í rólegheitum blessunin. Hún hefur ekki kippt sér mikið upp við heimsóknir smáfólksins sem kemur reglulega niður til að spjalla og skoða Sóla litla. Það birtast örugglega fleiri myndir af félaganum þegar hann verður búinn að opna augun og lítur ekki alveg eins út og rotta (eins og Dýrunn segir).
En nú er frúin að koma sér í vinnugírinn, hvað er nú það?? Fer á námskeið á morgun og hinn og svo fer undirbúningurinn að hefjast. Ég er líka að plana jóganámskeið og skipuleggja Herbavinnuna svo það er nóg um að vera á næstunni.
Sendi haustkveðjur... burr það er nefnilega farið að kólna aðeins.
Athugasemdir
Ég sé að það er nóg að gera hjá frúnni. Til hamingju með nýja fjölskyldumeðliminn sem ber þetta fallega nafn. Sýnist hann þó ekki hafa fengið krullurnar hans nafna síns :-)
Hilsen úr Rima númer 6
Halla "sys" (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 09:35
Til hamingju með nýja meðliminn í fjölskyldunni,ekki amalegt nafn.
Sjonni (IP-tala skráð) 15.8.2007 kl. 11:49
Til lukku með ketlingin Sólmund. Les ávallt bloggið þitt Solla mín.
Fjóla Þorsteins (IP-tala skráð) 16.8.2007 kl. 12:48
Hey Soll beib:)
Til hamingju með Sóla litla... :)
Dreifbýlistúttan (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 10:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.