Stór stund
Mánudagur, 9. júlí 2007
Það er stór stund í lífi hvers gutta að taka þátt í sínu fyrsta fótboltamóti. Friðrik fór að stunda fótboltaæfingar fyrr í sumar og í lok annars námskeiðsins tóku þeir þátt í Húsasmiðjumótinu á Egilsstöðum. Frá upphafi hefur hugurinn stefnt á þetta mót svo þetta var gífurleg upplifun. Sökum fámennis á Stöddanum er ekki hægt að halda úti æfingum hvað þá liði í þeirra flokki svo við nokkrar mæður höfum verið í skutli síðustu vikurnar yfir á Fáskrúðsfjörð. Ekki svo mikið mál, suma daga skutlar maður, þann næsta sækir og er stundum stikkfrír. Móðurinni þótti skrýtið að sonurinn skyldi frá fyrsta degi verða harður Leiknismaður og gamla Súluhjartað hristist örlítið en það eru breyttir tímar og frábært að þeir geti nýtt sér það góða starf sem fer fram hinum megin við fjallið.
Þar sem þeir frændur Friðrik og Eyþór hafa aldrei stundað æfingar eru átta ára jafnaldrarnir sem hafa haft æfingar frá sex ára aldri þeim örlítið fremri, skiljanlega en stundin var jafn stór þrátt fyrir það. Friðrik sem er nokkrum skrefum á undan sjálfum sér alla jafnan varð mjög spenntur þegar það var búið að skrá hann og spurði "Verð ég fyrirliði??". Leikirnir hjá 7. flokk eru nú ekki alveg svo planaðir að það sé sérmerktur fyrirliði.
Nú við lögðum í Héraðið og alveg eins og sauðir ekki alveg nógu vel útbúin og meira að segja á stuttbuxunum (reyndar með síðbuxur til öryggis). Flísteppið eitthvað sem mér láðist alveg að taka með svo maður sat skjálfandi undir jökkum og peysum þessa fimm tíma sem mótið tók. Það er nefnilega ekki alltaf bongóblíða á Egilsstöðum hehe. Vindurinn og kalsinn á köflum hafði nú ekki áhrif á keppnismenn sem gengu hnarreistir í skrúðgöngunni með sínum liðum í upphafi móts. Við Jósef misstum okkur alveg þegar Friðrik strunsaði framhjá því eitthvað hefur hann erft af Sunnuhvolsgöngulaginu og það var eins og Hilmar Örn gengi þarna eftir vellinum. Sækjast sér um líkir hehe. Nú hvað háralagið varðar þá hefði nú getað virst úr fjarlægð að Sommi sjálfur væri þarna á ferðinni en hann var nú örlítið þéttari á velli en stráið mitt og lubbinn þykkri.
Fyrstu þrjá leikina unnu piltarnir og það var að vonum mikil gleði. Svo fór þreytan að segja til sín og þeir gerðu jafntefli í fjórða leik. Þá fór að þykkna í mínum manni og eftir ófyrirgefanlegt brot á varnarjaxlinum Friðriki í eigin vítateig á síðustu mínútum fimmta leiks sem endaði í einum hrærigraut, einn féll ofan á kappann og að lokum datt hans besti vinur um þvöguna og rak takkana á öðrum fæti hressilega í höfuð Friðriks var honum öllum lokið. Þetta var fyrsti (og eini) tapleikurinn og kappinn ætlaði ekki að spila meira. Nú það tókst að telja í hann kjarkinn aftur og hann spilaði í síðasta leiknum og stóð sig með prýði og þar hlutu þeir jafntefli.
Þarna fengu allir sömu viðurkenningu hvort sem það voru A eða B lið og pylsuveislu á eftir. Þeir voru nú samt mjög glaðir með að vita að þeir voru í öðru sæti á mótinu.
Næsta námskeið hefst eftir viku og menn bíða spenntir, skoppa út í tíma og ótíma með boltann til að æfa sig og ekki verra að hann er áritaður af góðum köppum Eið og Ívari Ingimars. Svo er stefnan tekin á Króksmótið í ágúst og hugurinn hjá litla manninum mínum komin á völlinn. Hann spurði mig í gær "mamma, hefur þú komið á Krókinn?" og ég sagði honum stolt að ég hefði verið þar í skóla í tvö ár (fór ekki út í nein smáatriði) "Veistu hvar fótboltavöllurinn er?" kom þá og því gat ég ekki neitað enda búin að taka nokkrar gönguferðirnar þar framhjá, annað hvort á leiðinni í bæinn að útrétta eða seint að kvöldi á leiðinni heim af balli eða barnum . Ég hef ekki spilað fótbolta á honum enda var áhugasvið mitt á öðrum sviðum. Hlakka mikið til að koma þangað enda er allt of langt síðan síðast, fimm ár held ég, svei mér þá.
Læt fylgja mynd af kappanum með verðlaunapeninginn og Húsasmiðjukönnuna. Kúlan er falin undir hárlubbanum.
Athugasemdir
Já,hann Friðrik heldur uppi merki Sunnuhvolsættarinnar.Áfram Súlan.
Sigurjón Friðriksson (IP-tala skráð) 11.7.2007 kl. 00:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.