Að hafa eitthvað hlutverk...

Það skiptir smáfólkið ekki síður máli en fullorðna að hafa eitthvað hlutverk í lífinu. Það þarf ekki að vera stórvægilegt og að sjálfsögðu miðað að aldri og getu hverju sinni. Ég held því miður að mörg börn þessa lands og heims hafi aldrei fengið neitt hlutverk og það megi að hluta til skýra margt í þeirra fari. Ég tel að hafi maður ekkert hlutverk sé lítill tilgangur í þessu öllu saman eða skipti máli. Hvernig er hægt að ætlast til að unglingar fari að bera ábyrgð á hinu og þessu ef þeir hafa aldrei borið neina ábyrgð fram að því. Það er heilmikið hlutverk fyrir smáfólkið að skreppa niður í sjoppu og kaupa mjólk, að ég tali ekki um eggin sem þarf að passa vel. Þarna hafa menn þá ábyrgð að passa peningana, muna hvað á að kaupa, koma með vöruna óskemmda heim og afganginn. Og þetta er ekki gert til að fá eitthvað launum heldur er ánægjan yfir þessu "stóra" hlutverki yfirsterkari. Samt gleðjast menn yfir því að fá eitthvað smálegt fyrir og ekki þurfa það að vera peningar.

Ég datt í þessar pælingar um helgina þegar við vorum í Fögruhlíð, sumarbústað fjölskyldunnar. Í fyrra byrjuðu krakkarnir á því að moka möl upp úr læknum og bera mölina í göngustíginn og nú skyldi haldið áfram með verkið. Verra var að grasið var sprottið yfir mölina frá því í fyrra svo það þurfti að byrja á byrjunarreit. Strax á föstudag byrjuðu þau á verkinu, með stærðarinnar skóflu og fötu. Verkaskiptingin var þannig að Friðrik mokaði og Dýrunn bar mölina í stíginn. Þar sem hún gat nú ekki borið mikið gekk hann á eftir með eina skóflufylli. Þetta brösuðu þau við góða stund og hvíldu sig þegar þau voru orðin þreytt í bakinu. Næsta dag máttu menn varla vera að því að borða morgunverð því verkið beið og enn var mokað og borið í. Reglulega var hóað í mig og mömmu að koma  að skoða og prófa að ganga stíginn. Nú þau náðu að klára alveg niður að hliði með smá aðstoð frá Jósef undir það síðasta, lækurinn er ekki eins stútfullur af möl og Friðrik náði að losa um stærðar stein fyrir ofan vatnsrörið svo nú rennur úr þeim báðum (þetta þekkja bara nánustu fjölskyldumenn). 

Helgin var samt ekki eitt allsherjar puð, það var farið í sund og út á bát með Guðrúnu Rós og hennar börnum, við fengum silungsveislu í Vatnsskógum og þar var aðal skemmtunin að hoppa á milli heybagga sem nýttir eru sem hoppusvæði fyrir barnabörn Jóns og Laufeyjar. Við reyndum líka að veiða en það gekk ekki alveg svo silungurinn í Vatnsskógum bætti það upp og hvergi bragðast hann eins vel og þar.

Í dag herja strengir á smáfólkið og stífleiki en menn eru ánægðir með að hafa klárað þetta mikilvæga verk og haft þar með eitthvað hlutverk.  

Læt hér fylgja með mynd af vegavinnufólkinu sem lét ekki mývarginn stöðva sig við vinnuna.

Júlí 002

 

 

Heilræði dagsins: Leyfið börnunum að hafa eitthvað hlutverk :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Laukrétt Solla mín!

Halla "sys" (IP-tala skráð) 3.7.2007 kl. 10:19

2 identicon

Alveg bráðnauðsynlegt að hafa hlutverk og ekki síst fyrir börnin. Ég hlakka til að rölta þennan fína göngustíg í Fögruhlíð næst þegar ég fer þangað.

Sólrún (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 09:36

3 Smámynd: Sólmundur Friðriksson

Þú hittir naglann á höfuðið eins og venjulega litla sys. Gaman að fá smá FögruhlíðarVatnsskógafíling Hlakka til að koma í sumar.

Sólmundur Friðriksson, 7.7.2007 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband