"Ógleymanlegt fjör"
Miðvikudagur, 27. júní 2007
Þekkið þið þetta fallega fólk?? Um helgina skelltum við okkur nokkur ár aftur í tímann en ég hafði náð skilyrðum í dinner og partý hjá uppuppuppupplínunni minni í Herbalife og þemað var áttundi áratugurinn.
Ég var ekki lengi að redda dressinu, fékk fínu pallíettublússuna hennar Rósu lánaða, stutt pils frá Gurru og leðurjakka, restina átti ég þ.e. leggings og legghlífarnar síðan ég var fjórtán og hvíta eyrnalokinn í vinstra eyrað (líka síðan ég var fjórtán). Þetta var aðeins erfiðara fyrir Jósef. Fyrir það fyrsta er hann í annarri fatastærð en á þessum tíma og svo hélt hann ekki upp á gömlu dressin. Nú menn bjarga sér bara og hann skellti sér í Hjálpræðisherinn og fann þessar fínu buxur (af einhverri stútungskerlingu held ég) og bol og þá var málinu bjargað. Þegar ég var búin að mála á hann augabrúnir, maskara, setja eyeliner og kinnalit ásamt sólarpúðri var hann ómótstæðilegur. Ég hef bara aldrei séð hann svona sætan. Ég fékk heilmikinn fíling við að rifja upp gömlu hárgreiðsluna, var ekki með nógu sítt að aftan reyndar og dró upp bleika varalitinn og kinnalit. Ég mátti ekki mála augun vegna aðgerðarinnar svo ég skartaði þessum fínu sólgleraugum sem ég fann. Nú ekki var skótauið af verri endanum, ég fann glimmer skó sem Rósa á þarna á Lambastaðabrautinni og þeir vöktu mikla lukku.
Í partýinu fengum við voða fínan fordrykk, Egils appelsín í flösku með lakkrísröri, mis sterkt reyndar en svaka góður fílingur. Menn höfðu á orði að lakkrísrörið hefði bragðast öðruvísi í gamla daga en það svínvirkaði. Svo var flottur dinner á eftir með fínum pinnamat og góður fílingur eins og sjá má.
Í upphafi snérist aðal fjörið um að sjá múnderinguna hjá fólki sem var ótrúlega flott. Allir höfðu lagt töluvert á sig til að ná lookinu sem mest og ekki síst meikuppinu, bæði stelpur og strákar. Eftir dinnerinn bættist fleira fólk í hópinn, fólk sem náði skilyrðum í partýið og svo leiðtogar landsins í Herbalife ásamt Tove frá Noregi sem var gestur á S.T.S skólanum fyrr um daginn, alveg hreint frábær kona sem vert er að taka sér til fyrirmyndar. Hún missti sjónina að mestu þegar hún átti þriðja barnið sitt, er með 3% sjón og gerir það gott í viðskiptunum, enda sagði hún okkur að við hefðum engar afsakanir fyrir að geta ekki hitt og þetta. Sannölluð kjarnakerling.
Með þessu eðalfólki var farið í tyggjókúlúkeppni (hjónakeppni, Jósef vann mig), við öttum kappi í Sing Star og lenti undirrituð í öðru sæti, varð að lúta í lægra haldi fyrir söngkonu mikilli frá Eskifirði. Svo var dansað og sungið og djammað fram á rauða nótt.
Þetta var alveg óborganlegt og það lá við að maður hefði harðsperrur í maganum daginn eftir því það er langt síðan ég hef hlegið svona mikið.
Á sunnudag keyrðum við sem leið lá til Akureyrar, gistum eina nótt hjá tengdó og komum heim á mánudag. Þar tók Sóla á móti okkur fegins hendi enda búin að vera ein heima í heila viku og hundleið á því. Nú er maður aftur kominn í daglega amstrið, krakkarnir komnir á annað fótboltanámskeið og ég að samhæfa augun og þvo þvott. Bíð eftir að geta farið að gera jógað mitt en ég á að bíða í smá tíma með alla þannig áreynslu. Það er smá samhæfingarvandi í augunum en það er ekki komin vika síðan ég fór í aðgerðina svo ég er nú ekki að örvænta neitt. Stundum er það nú þannig að allt á helst að gerast í gær.
Haldið áfram að njóta sumarsins, hér er loksins komin langþráð væta fyrir gróðurinn..... sjáumst...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.