"Ég sé...."

Það var skrýtið að vakna í morgun, líta í kringum sig og sjá allt skýrt og greinilega. Ég skellti mér í langþráða laser sjónlagsaðgerð í gær og draumurinn um að losna við gleraugun orðinn að veruleika. Þetta er ótrúlega einfalt, fór í skoðun á miðvikudag sem var lengsti hlutinn í ferlinu og mætti svo í gær í aðgerðina sjálfa. Þá fékk ég einhverja bragðvonda pillu sem átti að slaka mér og svo byrjaði fjörið. Það tók mjög skamma stund og enginn sársauki nema þegar plásturinn sem límdi upp augun var tekinn, svei mér þá ég held ég þurfi ekki að plokka næstu vikur. Svo fór ég heim með þau fyrirmæli að leggja mig í nokkra klukkutíma. Ég lá í þrjá tíma en ég er ekki vön að sofa á miðjum degi svo ég lá og hugsaði með lokuð augun. Svo bara horfði ég á landsleikinn um kvöldið, reyndar með hléum þar sem ég þurfti að setja dropa í augun.

Ég er ekki alveg komin með fulla skerpu en alveg nóga sem nýtist mér við allt sem ég þarf að gera. Það er aðeins eins og ég sé með smá korn í augunum og ég þarf að vera dugleg að blikka og setja dropa í augun. Svo fer ég í skoðun á eftir til að láta meta árangurinn.

En svona ykkur að segja þá dauðkveið ég fyrir og mest óttaðist ég að fá ekki grænt ljós og geta ekki farið í aðgerðina. Það var ekki nein fyrirstaða og græna ljósið kom. Þá fór ég svolítið  að kvíða fyrir aðgerðinni því það er nú skrýtið að láta fikta í augunum á sér. Þá fór ég að hugsa um spekina frá honum Dale Carnigie í bókinni Lífsgleði njóttu þar sem hann talar um að sigrast á áhyggjunum áður en þær sigra mann og þar á maður að meta líkurnar á því að þetta sem maður óttast verði að veruleika.  Ég fór að spá .... innan við 1-2 % fá einhverja fylgikvilla að aðgerð lokinni og sagði við sjálfa mig að það væru verulega litlar líkur að ég yrði ein af þeim hehe. Ég var því nokkuð róleg og tók líka nokkrar slakandi öndunaræfingar úr jóganu og það svínvirkar alltaf.  Þegar ég var að bíða eftir aðgerðinni kom fram stelpa sem var nýbúinn og hún settist í næsta Lazy boy og sagði "Þetta er ekkert mál", þá fór síðasti litli hnúturinn.

Og nú fara gleraugun á Þjóðminjasafnið eða í pokann með gleraugunum sem ég hef átt í gegnum tíðina. Þau eru samt ótrúlega fá miðað við að ég hef borið þau á nefinu frá ellefu ára aldri því ég hef nýtt  vel og lengi hvert það par sem ég hef átt, það eru t.d.fimm ár síðan ég fékk mér þessi sem ég tók af mér í gær. Það er gaman að skoða safnið og meta tískustraumana. Þau eru af öllum stærðum og gerðum og nokkuð stór á köflum, mér þóttu fermingargleraugun stór maður lifandi, þau huldu næstum allt andlitið en svo komu dökku plastumgjarðirnar og þau voru Huge, en voru hátískugleraugu á sínum tíma frábært. 

Að öðru leyti hefur fjölskyldan það ljómandi fínt í fríinu og allt í rólegheitum. Við höfum verið dugleg í sundlaugunum en ég má ekki fara núna með augun mín næstu vikur. Dýrunn tók reyndar í sig smá hitapest og missti af sundlaugarferð í gær. Jósef fer með krakkana á fjölskylduhátíð hjá Eimskip á laugardag, ég á STS skóla og svo skella hjónin sér á 80tís partý um kvöldið, Jósef fór í Hjálpræðisherinn og keypti sér nett hallærisleg föt fyrir partýið.  Á sunnudag keyrum við Norður til Akureyrar, gistum eina nótt og svo brunum við heim.

Hafið það gott um helgina.......

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Solla mín til hamingju!!! Nú fatta ég skilaboðin sem ég fékk frá þér í gær, ég vissi ekki að þú værir að fara í þessa aðgerð núna, en þetta er frábært og ég samgleðst þér innilega.

Áslaug (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 15:23

2 identicon

Til hamingju með þetta Solla mín - gott að þú lést vaða! Það þýðir ekkert að hafa áhyggjur af hlutunum fyrirfram. Stundum verður maður að stóla á Guð og lukkuna. Góða skemmtun í sumarfríinu.

Halla K (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 13:59

3 Smámynd: Sólmundur Friðriksson

Frábært lilla sys. Ég man hvað ég hataði að fá gleraugun á sínum tíma en þú tjáðir mér einhvern tíma að þú hefðir dauðöfundað mig - viljað fá gleraugu eins og brósi. Svo hefur þetta snúist við og nú ert þú öfunduð af gleraugnaleysinu af brósa hehe... nei, nei.... auðvitað gerir hann ekkert annað en að samgleðjast þér.

Þar sem ég hef verið með gleraugu tæplega 75% af ævinni fyndist mér það skrýtin tilhugsun að þurfa ekki lengur á þeim að halda. En hver veit nema þær aðstæður skapist að maður geti drifið sig í svona.... en það verður þá að vera áður en maður fer að horfa eftir lesgleraugum á bensínstöðvunum.

Sólmundur Friðriksson, 25.6.2007 kl. 16:36

4 identicon

Til lukku með þetta, gleraugu eru leiðinleg tæki, ég er alltaf að týna þeim og stela frá Brekkunni þeirra augum og svo frv.

Hilsen 

Þóra Björk (IP-tala skráð) 26.6.2007 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband