2019 hjá genginu í Hólalandi 18

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.  Á tímamótum sem þessum er gott að minna sig á að horfa fram á við og þakka það sem liðið er. 

Árið 2019 var heilt yfir gott ár en einkenndist líka af erfiðleikum og erfiðum kveðjustundum í Sunnuhvolsfjölskyldunni.

 Í upphafi árs kvöddum við Stínu mágkonu hinstu kveðju og í nóvember fylgdum við Rikka mági síðasta spölinn.  Hvoru tveggja eftir stutta glímu við krabba kerlingu.  Þegar skarð er hoggið og maður upplifir systkini sín og fjölskyldu takast á við nýja tilveru þegar makinn er farinn, fyllir það mann ákveðnum vanmætti en minnir enn frekar á hvað það er mikilvægt að njóta allra þeirra stunda sem manni hlotnast. Einnig að fjölga samverustundum með þeim sem okkur þykir vænst um. 

Þá skal skautað yfir hluta af gleðistundum ársins og því sem lagt var í reynslu og viskubrunninn. 

Í janúar skellti ég mér til Svíþjóðar í heimsókn til vinkonu minnar og kenndi einn Foam flex tíma og svo námskeið fyrir kennara. Það var svakalega skemmtilegt og nokkuð stórt skref út fyrir þægindarammann. 

Í febrúar skellti ég mér af stað í ótrúlega áhugavert ferðalag og byrjaði að læra svokallaða Orkupunktajöfnun. Það fól í sér fjórar helgar frá lokum febrúar til loka nóvember með tilheyrandi æfingum þess á milli. Flestir vinir og vandamenn í nánasta hring eru sultu slakir og vel orkujafnaðir enda var kellan ákveðin í að æfa sig vel og mikið. 

Í mars bar það helst til tíðinda að við hjónakornin skelltum okkur til Reykjavíkur, drifum Sjonna bróður með og fórum á tónleika með meistara Megasi, já eða tónlistarfólki sem flutti lögin hans. Hann var eitthvað slappur og kom aðeins fram í lok tónleikanna. 

Ég skellti mér á mínar fyrstu Kærleiksdaga á Breiðdalsvík í lok apríl, tók nuddbekkinn með og nokkrir fengu sér Regndropameðferð. Það var góð dvöl og góð hleðsla á orkutankinn og gleðina í hjartanu. 

Í lok maí útskrifaðist Friðrik sem húsasmiður frá Verkmenntaskólanum á  Akureyri og rúllaði sveinsprófinu upp stuttu síðar. Við dvöldum fyrir norðan í nokkra daga og áttum góðan útskriftardag og kvöld með kappanum og fjölskyldu.  

Í júní var næsta útskrift. Þá útskrifaðist Dýrunn úr M.A. af Náttúrufræðibraut. Guðmundur kærastinn hennar útskrifaðist einnig af Félagsfræðibraut.  Við dvöldum á Akureyri í bústað í viku af þessu tilefni, snæddum með unga fólkinu og foreldrum Guðmundar á útskriftarkvöldinu og héldum systkinunum sameiginlega útskriftarveislu með fjölskyldu og góðum vinum daginn eftir. 

Það er svo ótrúlegt að börnin manns séu komin á þann stað sem maður sjálfur var á fyrir ekki svo löngu.... í huganum í það minnsta. Svo ekki sé talað um stoltið sem foreldri þegar áfanga er náð.  Friðrik og DýrunnDýrunn og Guðmundur

 

 

 

 

 

 

 

Þau dvelja bæði á Akureyri. Friðrik vinnur áfram hjá fyrirtækinu sem hann tók samninginn hjá og unir hag sínum vel. Dýrunn býr hjá Guðmundi og tengdaforeldrum. Vinnur hjá MS og er að hugsa sinn gang varðandi áframhaldandi nám næsta haust. 

Ég fékk skemmtilegt verkefni í júlí og ágúst við að kenna jóga hjá fyrirtæki sem kallast The Ashram og dvaldi með fjóra hópa, viku í senn innst í Breiðdal í heilsudvöl.  Þar kenndi ég nokkra svokallaða Yin jóga- og Restorative jógatíma, á ensku að sjálfsögðu. Það var stórt skref út fyrir rammann. 

Ég hélt einnig nokkra fyrirlestra á Salthússmarkaðnum fyrir erlenda ferðamenn sem sigla hringinn í kringum landið og fræðast um land og þjóð í stoppunum sínum.  Áframhald verður á þeim fyrirlestrum og er það þá fjórða sumarið sem þetta verkefni er í gangi.  

Við hjónakornin skelltum okkur í eina útilegu og fórum stutt skrepp í bústaðinn sömuleiðis. Alltaf með fyrirheitin um að fara oftar og dvelja lengur næsta skipti. 

Í ágúst fórum við í bæinn og ég, Dýrunn og Guðmundur fórum á tónleikana með Ed Sheeran.  Á mánudegi þar á eftir lögðum við land undir fót með Friðriki og Dýrunni í útskriftar og afmælisferð. Flogið var til Boston og við dvöldum þar tæpa þrjá daga áður en við héldum áfram til Tampa í Flórída. Þar vorum við í vikutíma í notalegu húsi í þægilegu hverfi.  Hitinn var hrikalega góður fyrir íslenska kroppa, reyndar grétu himnarnir töluvert yfir komu okkar en það var ljúft að slaka á við sundlaugarbakkann engu að síður og kæla sig af og til.  Hápunktur þeirrar ferðar voru tónleikar með Queen 18. ágúst á tvítugs afmælisdegi Friðriks.  Það var góð skemmtun. 

Í lok september keyrðum við hjónakornin alla leið vestur á Drangsnes og dvöldum þar á Kærleiksdögum með góðum hóp af alls konar heilurum. Nuddbekkurinn með í för og nokkrir teknir á bekkinn, núna líka í OPJ og smá nudd með.  Skvísan skellti sér líka á netnámskeið í svæðameðferð í sumar á milli æfinga, vinnu, afleysingar og gæd túra. 

Í október fór ég til Húsavíkur með Hvalnesstystrunum góðu og við dvöldum þar yfir helgi. Hittum ekki Brosnan þó hann hafi ákveðið að dvelja þar sömu helgi og við en nutum dvalarinnar eins og okkur einum er lagið.

Upp úr miðjum okt dvöldum við hjónakornin á Sigló hotel í þrjár nætur. Árshátíð Rubix var haldin þar þetta árið og við framlengdum dvöl til að nýta gjafakort sem Jósef átti. Á meðan hömuðust smiðir á húsinu okkar og skelltu upp einu þaki á nokkrum dögum. Það er verulega ljúft að sá höfuðverkur sé að mestu leyti frá og enginn þarf að fara á taugum þegar það kemur krapahríð. 

Í nóvember stóð ég fyrir því að haldið var nuddnámskeið hér á Stöðvarfiði. Tvær helgar, sú fyrri í upphafi mánaðar og sú síðari í lok mánaðar.  Klassískt vöðvanudd er það kallað og nú getur kellan nuddað fólk eftir óskum með Orkupunktunum. Þetta var eiginlega ögrun ársins því ég hef jú lengi vel tekist á við vefjagigtina með tilheyrandi alls konar og talið mér trú um að ég geti ekki nuddað.  Ég get það svo sannarlega EN þarf að sníða mér stakk eftir vexti og tek ekki marga á bekkinn í viku hverri. Áfram vinn ég hjá HSA, nú í 50% prósentum og dunda við jóga með því yfir vetrartímann og ýmislegt annað eins og upp er talið hér að ofan yfir sumarið. Hef einnig haldið nokkrar kakó hugleiðslustundir.

Jósef vinnur áfram á sama stað, með nýju nafni, Brammer breyttist í Rubix. Hann breyttist ekki en fékk reyndar í sig varahlut í sumar þegar settur var í hann bjargráður sem á að kikka inn ef hjartað fer á yfirsnúning. 

Í desember skelltum við okkur í aðventuferð í byrjun mánaðar til Akureyrar því við vorum líka ekki viss um hvort við færum norður um áramót og langt síðan við höfðum átt góða stund með fjölskyldu Jósefs á Akureyri. Svo leið aðventan með töluverðum söng, bæði æfingar fyrir aðventukvöld og jól. Svo slæddust jarðarfarir með líka en hér hafa verið hoggin full mörg skörð í litla samfélagið síðustu árin. Vonum að nú sé mál að linni.

Krakkarnir komu heim í jólafrí og það er náttúrulega allra best. Þau komust rétt áður en fjöllunum var lokað vegna slæms veður og náðu vikudvöl áður en þau héldu norður á nýjan leik. Við eltum og fórum norður daginn fyrir gamlársdag og vörðum áramótunum með Byggóenginu.  

Nú er nýja árið að hefjast og við komin heim á nýjan leik. Ýmislegt framundan og mesta tilhlökkunin er yfir komu þriðja barnabarnsins snemma í júní hjá Höllu og Árna og yfir krílinu hjá Hildi frænku sem áætlað er að fæðist í lok júní. Einnig að komast í sól og hita í febrúar um það leyti sem húsfrúin hoppar yfir á nýjan tug, já og ýmslegt fleira. 

Það er gott á tímamótum sem þessum að skerpa á markmiðunum og ekki síður gaman að líta yfir farinn veg og sjá að það gerðist svo margt skemmtilegt á árinu og margt að sjálfsögðu sem ekki er tíundað í þessum pistli. Ég óska öllum vinum og vandamönnum og samferðafólki öllu gleðilegt nýs árs og vonandi hittumst við sem oftast á nýju ári. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband