Á aðventu á því herrans ári 2016
Laugardagur, 10. desember 2016
Þegar þriðji sunnudagur í aðventu nálgast hratt er við hæfi að setjast niður og pára niður eitthvað af því markverðasta sem gerðist þetta ár.
Ég horfi framhjá því að ég sleppti jólapistlinum í fyrra, ekki að það ár hafi verið tíðindalaust, nei, ég var bara löt. Eftir á að hyggja er þetta heilmikil heimild og gaman að fletta til baka og skoða hvað við höfum verið að brasa þó bloggiðni mín sé í dvala á milli jóalpistla.
Í ár sendum við jólakortin rafrænt nema til örfárra aðila á besta aldri. Fjölskyldan ætlar að skella sér til Þýskalands og því er undirbúningur fyrir jól í algjöru lágmarki hér heima við.
Snúum okkur að árinu 2016. Þegar árið gekk í garð höfðum við ákveðið að fara í framkvæmdir í kjallaranum hjá okkur og græja herbergin tvö og rýmið niðri sem gistiheimili fyrir ferðamenn, innlenda og erlenda. Vinann hófst í desember 2015 þegar byrjað var að skipta um rafmagn á neðri hæðinni enda allt í þeim pakka komið hressilega til ára sinna.
Farið var í könnunarleiðangur til Reykjavíkur í janúar og ýmislegt skoðað sem áhugavert væri að fjárfesta í fyrir framkvæmdirnar. Svo fórum við smátt og smátt að hefjast handa. Skráðum okkur í apríl og bókanir byrjuðu að detta inn. Já, við ætluðum að opna 15. maí. Síðustu vikurnar eru svona nett í móðu því þá var endaspretturinn í hámarki. Það var pússað og málað, fingur krossaðir yfir því að sturtan, svo klósettið yrði klárt í tíma og þar fram eftir götunum. Málningin rétt náði að þorna á hurðunum þegar fyrstu gestir mættu á svæðið.
Fyrstu gestir voru frá Frakklandi. Indælt par sem við buðum í kjöt og grænmetissúpu. Þau voru alsæl og sögðu að þetta væri það albesta herbergi sem þau hefðu gist í í ferðinni sinni. Svo tikkaði þetta inn og í júlí og ágúst voru varla nætur sem ekki var gist í kjallaranum. Ég sá um að græja herbergin að mestu og Jósef um skráningarvinnuna t.d. frá hvaða löndum gestirnir væru og ég hugsa að hann bæti bílnúmerum og lit inn næsta sumar til að athuga hvort sú ótrúlega staða komi upp að einhver bíll komi tvisvar til okkar, spennandi.
Áhugsamir geta flett upp Holaland 18 á ónefndri síðu sem byrjar á A og endar á b.
Jósef er hjá Brammer og unir hag sínum vel þar. Leggur af stað fyrir allar aldir í rútuna. Í sumar fékk hann stundum far hjá spúsu sinni í og úr vinnu því hún fékk sér aukavinnu hjá Tanna Travel á Eskifirði.
Sú vinna tengdist að mestu verkefninu Fly Europe sem Tanni vann með Discover The World að beinu flugi til Egilsstaða í sumar. Kellan sá um bókanir Íslands megin frá og var fulltrúi fyrirtækisins flesta þá daga sem flogið var í Egilsstaði. Skemmtilegt og góð tilbreyting. Í verkefninu Meet the locals á vegum Tanna fór ég í nokkrar bæjargöngur á Stöðvarfirði, í jógagöngur, bæði með viðskiptavini og breska blaðamenn sem hingað koma áhugasamir til að skoða afþreyingarmöguleika á Austurlandi. Á síðunni tannitravel.is er hægt að skoða ýmsa afþreyingarmöguleika hér fyrir austan. Jógagöngur er líka hægt að bóka á tinna-adventure.is. Allt fæðist þetta mjög hægt og rólega en þó vöxtur frá ári til árs.
Friðrik kom heim í maí eftir sinn fyrsta vetur í Verkmenntaskólanum á Akureyri og vann hjá Fjarðabyggð og Landatanga við hin ýmsu verk ásamt því að slá hjá grannanum okkar. Hann fjárfesti í bíl af Subaru gerð og tók bílprófið í september. Það var mikil gleði að fá það frelsi og hann hefur komið eina ferð austur á kagganum eftir það. Honum gengur vel í náminu og stefnir á að fara á samning fyrir norðan næsta vor.
Dýrunn sem ætti að vera í 10. bekk sótti um að komast í það sem kallað er Krílabekkur eða Hraðbrauð í MA. Margir góðir nemendur sóttu þar um og þegar símtalið kom þar sem mér var tjáð að það kæmust ekki allir inn var ég hrædd um að hún fengi synjun en nei, henni var boðið að hefja nám beint í fyrsta bekk. Hún er núna við það að ljúka sinni fyrstu önn þar, líður vel og finnur sig vel í skólanum. Gengur vel í náminu þó stærðfræðin sé aðeins að hrella hana svona fyrst um sinn. Hún vann hjá Brekkusystrum í sumar og afgreiddi ferðamenn og eldaði handa þeim. Hún hljóp undir bagga með okkur í kjallaranum og æfði og keppti með Fjarðabyggð.
Í byrjun júní skellti ég mér ásamt systrum mínum til Finnlands í heimsókn til Hilmars systursonar míns sem hefur búið þar í nokkur ár. Það var mjög skemmtileg ferð og við keyrðum aðeins um í kringum Oulu þar sem hann býr og heimsóttum skólasystur Sólrúnar í Nykarleby og gistum þar eina nótt.
Sökum anna vegna vinnu og bindingu vegna gistingarinnar fórum við lítið í ferðalög. Við fórum til Akureyrar um verslunarmannahelgina og gistum í bílastæðinu hjá Begga bróður Jósefs í fellihýsinu. Það var útilega sumarsins.
Þvottavélin fékk heilabilun á versta tíma í miðri vertíð og við brunuðum í Egilsstaði og sóttum nýja því það var enginn tími til að bíða eftir nýjum heila. Ef hann finnst næsta sumar þurfum við að hafa tvær vélar. Það væri líka næs að hafa góðan þurrk :).
Við Jósef skelltum okkur í smá frí upp úr miðjum september til Spánar og Frakklands til að hlaða batteríin. Það var mjög skemmtileg ferð. Við vorum í viku á resorti sem heitir Giverola í nágrenni bæjar sem heitir Tossa de mar. Við dvöldum þar árið 2008 með góðum vinum og það er hægt að lesa um það einhvers staðar á þessari síðu. Við keyrðum þaðan til Frakklands og völdum okkur borgina Montpellier, gistum þar í íbúð og skoðuðum ýmislegt í nágrenninu. Aðallega höfðum við það náðugt og ekkert of mikið planað.
Bæjarhátíðin Stöð í stöð var haldin hér í júlí og þá var fjölmenni í Hólalandinu. Þá helgi tókum við frá fyrir okkar fólk. Það var heilmikil dagskrá og svaka skemmtilegt ball með Buffinu. Það allra skemmtilegasta sem ég hef farið á lengi lengi.
Við fengum litlu Þýskalandsfjölskylduna okkar í stutta heimsókn í júlí og það var ofsalega gaman.
Á haustmánuðum flugu börnin svo úr hreiðrinu og þá var tómlegt í kotinu, eiginlega hálf asnalegt fyrst. Svo venst þetta. Ég er enn í skólanum í 65% og í "skemmtilegri" kjarabaráttu þessa dagana, með verkefni frá Tanna til að vinna í smátt og smátt og jóga með uppáhalds jógakellunum mínum.
Jósef er í stjórn hjá yngri flokkum Fjarðabyggðar og stjórn UÍA og ég áfram hjá Krabbameinsfélaginu og Rauða krossinum ásamt því að sitja í barnaverndinni hér í sveitarfélaginu.
Við vorum kosin í hjónaballsnefnd, þá fjórðu sem við störfum í eftir að við kynntumst á hjónaballi 1997. Í fjöldamörg ár hefur það verið haldið á milli jóla og nýárs en alltaf verið rætt um að færa það til. Við gerðum það og héldum heljarinnar ball og skemmtun í byrjun nóvember ásamt góðu fólki í Sköpunarmiðstöðinni, nánar tiltekið í gamla frystiklefanum í frystihúsinu fyrrverandi.
Fyrstu gestir á nýju ári mæta strax í mars og við búumst við góðu og skemmtilegu sumri. Næsta sumar verð ég meira heima við því þetta er ansi drjúg vinna og það tók gigtarskrokkinn í að vinna það á hlaupum.
Í ágúst yngdi Jósef upp um tólf ár eða svo en þá keyptum við okkur glænýjan bíl. Sá gamli var farinn að detta í drjúgan kostnað á köflum, vantaði meiri hæð og fjórhjóladrif. Tivoli frá Sangyoung varð fyrir valinu, nettur og lipur og hentar okkur ljómandi vel.
Við syngjum enn í kórnum okkar og því miður höfum við verið í of góði æfingu í jarðarfararsöng. Hér á Stöðvarfirði voru fjögur dauðsföll á um tveimur mánuðum, allt ótímabært og mikill skellur fyrir litla samfélagið okkar. Það tók verulega á. Næsta ár ætlar kórinn í ferðalag til Englands og mér skilst að sumir séu farnir að skipuleggja það að fara á leik.
Ég fer til Englands í janúar með samstarfsfólki mínu í skólanum á svokallaða Bett ráðstefnu. Allir skella sér og það verður væntanlega mjög skemmtilegt.
Talandi um utanlandsferðir, þá er ein handan við hornið....
Eins og ég talaði um í upphafi þá förum við til Þýskalands eftir rúma viku og verjum jólunum hjá Höllu, Árna og stelpunum. Það er mikil tilhlökkun á báða bóga. Unglingarnir eru alsælir yfir því hvað evran er hagstæð og mér skilst að sumir ætli að fata sig vel upp.
Það sem ég hef hér talið upp er brot af því besta. Ýmislegt hefur að sjálfsögðu gleymst en það sem mest er um vert að við erum við fína heilsu og hlökkum til að takast á við nýtt ár.
Öllum vinum og ættingjum nær og fjær sendum við bestu óskir um gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár. Vonandi hittum við ykkur flest á nýju ári.. það er alveg kominn tími til í mörgum tilfellum...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.