Danmerkurferðin
Miðvikudagur, 9. maí 2007
Heil og sæl.
Þá er ég komin aftur á klakann eftir dásemdar helgi í einu orði sagt. Við stöllurnar lögðum af stað frá Brv. seinnipart fimmtudags og innrituðum okkur á "hótelið" í Keflavík (hjá upplínunni okkar Friðgeir og Ragnheiði) rétt upp úr miðnætti. Við náðum smá kríu og fórum í loftið upp úr sjö.
Danmörk tók á móti okkur björt og brosandi. Við sóluðum okkur fyrir utan flugstöðvarbygginguna meðan Friðgeir og Ragnheiður sóttu bílaleigubílinn og svo var brunað í átt að Árósum. Við fórum landleiðina og keyrðum yfir
Stórabeltisbrúna sem er þokkalegt mannvirki.
Útsýnið á leiðinni var nú ekki mjög stórbrotið enda ekki furða þar sem þetta blessaða land er ansi flatt en ég var heilluð yfir gulu ökrunum sem teygðu sig vítt og breytt meðfram vegunum. Ég var búin að sjá þetta fyrirbæri úr lofti og spáði mikið í hvað þetta væri eiginlega.
Seinnipartinn vorum við komin til Árósa. Við vorum á SAS hóteli í miðbænum sem var mjög fínt. Nú tók við slökun og sturtur. Við kerlurnar vorum þrjár saman svo það var skellt upp einum bedda. Um kvöldið var síðan svokölluð íslensk HOM kynning sem er kynning á viðskiptatækifæri Herbalife. Þar voru dreifingaraðilar og gestir þeirra sem búa á svæðinu. Hún var skemmtileg að vanda.
Laugardagurinn var aðal dagurinn. Þá var STS skóli (successive training scool) og Summer spectacular. Fyrst voru allir í sama sal og farið í gegnum ýmis grunnatriði, síðan var salnum skipt upp og Ísl. og Danirnir sem höfðu náð ákveðnum skilyrðum fengu mega þjálfun meðan óbreyttir héldu áfram á STS skólanum. Þetta var hreint út sagt frábært og styrkti mig privat og persónulega á allan hátt. Þarna skiptust á sviði Íslendingar og Danir hver öðrum ótrúlegri. Það féllu margir gullmolarnir og það var mikið hlegið og glósað maður lifandi.
Um kvöldið snæddum við öll saman og það var ekki slor. Heljarinnar hlaðborð af alls kyns dönsku gúmmulaði. Eftir matinn var sungið og dansað, sumir héldu svo áfram fram á nótt en aðrir og þ.á.m. við fengum okkur gönguferð eftir Strikinu í Árósum og kíktum á lífið.
Við tókum daginn snemma morguninn eftir, tókum ferju frá Árósum og yfir sundið. Þetta var algjör spíttferja og ferðin tók innan við klukkutíma, rosalega þægilegt. Eina sem skyggði á var þokan svo við sáum ekki mikið.
Köben beið spennt eftir okkur og við vorum svo heppin að þetta var fysti sunnudagur í mánuðnum og því voru búðirnar á Strikinu opnar. Við byrjuðum á smá snæðingi til að hafa orku í búðunum og veðrið lék við okkur eins og sjá má.
Svo straujuðum við Strikið en samt var Visa kortið ekki mikið straujað, við vorum svo nægjusamar að pokarnir tóku ekki einu sinni í undir það síðasta.
Að sjálfsögðu settumst við hjá Nýhöfninni sem iðaði af mannlífi og við Svandís fengum okkur en öl. Skál !!
Við sleiktum svo sólina á Ráðhústorginu seinnipartinn áður en við fórum í flugið. Það gekk allt vel þrátt fyrir að við þyrftum að hætta við lendingu vegna umferðar á vellinum og fengum útsýnisflug yfir Suðurnesin, a ekki það mest spennandi hjá minni en ég lifði það af.
Við fengum aftur gistingu hjá Friðgeir og Ragnheiði og lögðum okkur í rúma þrjá tíma og keyrðum af stað um fjögurleytið frá Keflavík. Úff það var erfitt að vakna og ég var voða þreytt alla leiðina. Helga og Svandís sáu um aksturinn og við vorum komnar á Breiðdalsvík um hádegisbil.
Ég náði smá lúr svo ég var held ég ekki neitt voða tuskuleg í jóganu en mikið skelfing var gott að halla sér í rúminu eftir Supervisorfundinn á netinu um ellefuleytið.
Þrátt fyrir að svona ferðalög séu strembin þá er þetta svo sannarlega þess virði. Þetta þéttir fólki betur saman, maður kynnist nýju fólki og styrkir tengslin við aðra. Nú styttist í næstu ferð, á Extravaganza í Köln í júli og um að gera að bretta upp ermarnar
Venlig hilsen
Athugasemdir
Sæl systa. Þetta hefur verið hin ánægjuríkasta ferð sé ég. Við þekkjum það nú bæði hve Danaveldið er frábær staður til að heimsækja. Spurning hvenær við förum þangað næst...
Sólmundur Friðriksson, 10.5.2007 kl. 10:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.