Betrumbætt kryddbrauð með bananaívafi.
Mánudagur, 11. nóvember 2013
Hér er nýjasta útgáfan af kryddbrauðinu sem ég var að baka í massavís um helgina fyrir árshátíðarkaffið. Ég bætti inn heilhveiti, í upphaflegu uppskriftinni voru 2 bollar af sykri, ég set banana í staðinn, egg og smá olíu til að mýkja og það hefaðist líka enn betur. Að öðru leyti nota ég gömlu uppskriftina.
2 bollar hveiti
1 bolli heilhveiti
3 bollar haframjöl
1 bolli sykur
2 bananar
1 egg
1 msk olía
3 tsk kanill
2,5 tsk natron
1 tsk lyftiduft
2 tsk kakó
1 tsk negull
1 tsk engifer
ca 2 bollar mjólk (passa að deigið sé ekki of stíft eða of lint)
Bakað í tveimur löngum formum við 180° í 40 mín.
Þetta er árshátíðarútgáfan en þegar ég kem til með að gera hana fyrir heimilið læt ég spelt í staðinn fyrir hveitið og jafnvel meira heilhveiti - einnig set ég púðursykur fyrir þann hvíta. Að öðru leyti held ég mér við þessa nýju útfærslu. Speltið fer betur í magann minn en það hvíta og ég er alltaf að vinna í að kúpla hvíta sykrinum sem mest út.
Þegar bananarnir eru farnir að gulna og mýkjast vill þá enginn hér á bæ. Ég skelli þeim í frystinn og baka svo úr þeim við gott tækifæri. Núna var svo sannarlega gott tækifæri enda átti ég nóg í þessi átta brauð sem ég gerði og mig grunar að fleiri leynist innar í frystinum. Ég set þá beint í frystinn því þeir eru í svo góðum umbúðum frá náttúrunnar hendi. Þeir eru fljótir að þiðna og verða mjög mjúkir. Ég klippi efst á bananann og kreisti innihaldið út eða það rennur eiginlega út. Ótrúlega einfalt.
Yfir og út.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.