Skáldað í eldhúsinu.. eða kannski skapað.

Ég er víst ekki skáld því samkvæmt Wikipedia er skáld sá sem yrkir ljóð, einnig um leikritahöfunda en sjaldnar um rithöfunda.

Þegar ég elda eða baka þá skálda ég yfirleitt töluvert, það er dass af hinu og þessu og þó ég sé með uppskrift skrifaða fyrir framan mig dassa ég meira, sleppi og bæti við.  Samt er ég víst ekki skáld.

Í þessum skrifuðu orðum er kryddbrauð í ofninum sem ég var að skálda.  Reyndar út frá annarri uppskrift en með nýjum áherslum. Ég átti svo mikið af bönunum í frysti og ég bætti þeim inn í stað annars bollans af sykri sem upp var gefið í upphaflegu uppskriftinni. Heilhveiti bætti ég á móti hveitinu og brúnkökukryddi á móti kanil, negul, engifer og kakó.  Fyrsta holl lofar góðu og í næsta holl bætti ég einu eggi við og smá olíu, aðeins til að mýkja eða ég tel mér trú um að það mýki. Ég bíð eftir þeirri útgáfu áður en ég hendi í næsta skammt.

Tilraunadýrin mín vera gestir á árshátíð Stöðvarfjarðarskóla n.k. fimmtudag og ég svífst einskis í að bjóða upp á skáldaðar tilraunaútgáfur af kryddbrauðinu.   

Kannski flokkast þetta allt undir sköpun, það er jú eitt af vinsælum orðum í dag, alls konar sköpun út og suður sem er frábært því mér finnst fátt meira áhugavert en skapandi fólk á hvaða sviði sem er. Það hugsar yfirleitt út fyrir rammann og oft víðsýnt og skemmtilegt.

Kannski er ég bara kona á fimmtugsaldri sem hefur gaman af því að gera tilraunir í eldhúsinu.  Nei, ég við halda mig við sköpunina.

Njótið dagsins hvort sem hann er í skáldskap, sköpun eða bara einhverju.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband