Að drífa sig úr hversdagsleikanum.
Fimmtudagur, 31. október 2013
Um síðustu helgi var vetrarfrí í skólanum og ákváðum við að smella okkur í sumarbústað af því tilefni.
Mættum í Einarsstaði seinnipart föstudags og yfirgáfum slotið nokkrar mínútur í tólf á mánudag. Að hafa afnot af heitum potti er algjör sæla og hann var gjörnýttur. Að meðaltali farið tvisvar á dag af flestum fjölskyldumeðlimum.
Á planinu var aðeins eitt atriði. Að fara á tónleika í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardagskvöld með Dröngum. Þar var fullt út úr dyrum og Drangamenn þöndu hljóðfærin og raddböndin og lögðu allt í það með góðum árangri. Nú nýt ég þess að hlusta á diskinn og finna fílinginn aftur.
Hvíldin frá internetinu var mjög góð og engin fráhvarfseinkenni, ég gat farið á netið í símanum en símasambandið var svo afspyrnu lélegt að það tolldi ekkert inni. Við spiluðum, átum gúmmulaði, spiluðum meira, fengum okkur göngu og slöppuðum fyrst og fremst af. Það var auðvitað tilgangurinn og við stóðum alveg við það. Eini gallinn voru springdýnurnar í rúmunum sem aðeins eru farnar að slappast og bakið sem er líka farið að slappast líka var ekki alveg að höndla það.
Það þarf ekki langt í burt né mikið prógramm til að endurhlaða batteríin og skerpa hugann fyrir komandi vikur. Ég held ég komist langt á þessari hleðslu.
Yfir og út.
Athugasemdir
Við vorum yfir helgi í bústað í sept sem var fínnt ,en já ég er sko sammála þér með dýnurnar í rúmunum þær eru hræðilegar og til skammar að það skuli ekki vera búið að endurnýja þær...
Herborg (IP-tala skráð) 3.11.2013 kl. 17:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.