Jarðarför, tinktúrur, bláber og fókus.

Svaka titill á pistli dagsins.  Þar sem ég hef lítið setið við skriftir ákvað ég að pakka öllu saman í sama pistilinn.

Ég byrja á jarðarförinni.  Við kvöddum Friðrik tengdapabba hinstu kveðju 19.júlí. Ella og Stjáni komu þann 18 frá Noregi og Alabama. Kistulagningin var um morguninn og útförin eftir hádegi.  Kistan var umlukin íslenska fánanum og krans frá barnabörnunum í fánalitunum stóð við hliðina. Fallegt og látlaust. Fyrir athöfn voru spiluð lög þeirra Jónasar og Jóns Múla Árnasona og þar má segja að það hafi mest kallað fram tárin. Þetta eru lögin sem við sungum í Byggópartíum og með sérstakri áherslu síðustu ár þegar sá gamli kom heim í partý. Lady fish and chpis var síðast á dagskrá fyrir inngöngulagið og þá sugu margir upp í nefið. Inngöngulagið var King of the road og það lá við að menn dilluðu sér í sætunum.

Söngurinn hjá Hymnodiu var fallegur en það eru meðlimir í kór Akureyrarkirkju, tveir í hverri rödd og útkoman var falleg. Ég var mest upptekin af því að hlusta á Tvær stjörnur og skældi óvenju lítið. Þau sungu útsetningu sem við sungum í kórnum hér og hún er ofur falleg. Þegar maður syngur í kór þá hlustar maður ósjálfrátt eftir röddinni sinni og fylgir henni eftir í þeim lögum sem maður kann.  Nú legg ég augun aftur fyrir moldun reynist mér alltaf erfitt og þá komu flestu tárin.

Internationalen var hressandi útspil og fremstu kistuberarnir voru svo snöggir að þau rykktu kistunni upp áður en Jósef og Ella sem voru við höfðagaflinn voru búin að finna stöngina undir fánanum. Það kom fát á minn mann og við grínuðumst með það á eftir að það hefði verið gott að sá gamli var langur annars hefði heyrst dynkur þegar hann hefði rekist í höfðagaflinn. Já það er alltaf stutt í grínið hjá Byggóliðinu og í erfidrykkjunni var Beggi svo glaður því honum fannst þetta svo skemmtileg jarðarför. Átti auðvitað við hvað allt hefði tekist vel og sérstaklega vel valin söngatriði (hjá okkur Jósef). Um kvöldið var svo partý að Byggósið og skálað ítrekað fyrir þeim gamla, Jónas og Jón Múli sungnir og ýmislegt fleira úr Byggósöngbókinni. 

Þá er það tinktúran.

Síðustu vikur hefur maríustakkur legið í vodkalegi og verið hristur annan hvern dag í því skyni að búa til heilsusamlega tinktúru.  Nú er tinktúran klár og komin á krukku. Svo fæ ég mér slurk af og til og verð örugglega svaka heilbrigð af því LoL. Maður finnur sér ýmsar ástæður til að staupa sig. Ég tíndi ekki alveg eins margar jurtir í sumar og ég ætlaði mér en samt meira en í fyrra og það er framför. Ég sætti mig við það. Veikindin í júní settu mig svolítið út af laginu og ég datt svo úr formi að það hálfa væri hellingur. Það er allt á hægri uppleið. 

Ég skellti mér hér uppfyrir byggð í morgun og baksaði lafmóð eftir stígnum sem liggur upp í vatnsból og í átt að Smalaþúfunni góðu. Ég ætlaði bara stutt og hef ákveðið að fara frekar þessa leið heldur en ganga götuna því þetta tekur svo í lærin og lungun. Ég var eins og mæðuveik rolla svo lélegt er úthaldið. Þess má þó geta að ég slæ auðvitað ekki af hraðanum frá því þegar ég er í betra formi. En ég fór auðvitað að skoða berin og þau lofa góðu jedúddamía, það verða sko svartar og bláar brekkur eftir svona tvær vikur. Það er alveg hægt að finna fín ber og ég tíndi mér smá í poka sem ég var með í vasanum, skellti beint í frost og þau fara í hádegissjeikinn.

Þar erum við komin að fókusnum. Nú þegar þolið fer og allt linast upp þá er auðvelta að detta í eitthvað tröstespis eins og danskurinn segir. Mér var farið að blöskra sykurátið á mér og flöffý bumba og tölurnar á vigtinni svo það var ekkert annað í boði en snúa þróuninni við.  Nú er búið að mæla og vigta og fá tvær skvísur með í fókus næstu átta vikurnar í það minnsta. Á degi tvö hafa mis gómsætir drykkir verið bruggaðir í úthreinsunarskyni og ég hef held ég fullreynt að rauðrófur henta mér ekki. En appelsínusafi (ferskur úr appelsínunni), engifer, hvítlaukur, sítrónusafi, cayenne pipar og ólífuolía er hinn allra besti drykkur, svakalega hressandi.  Nú er jurtate komið á brúsann og harkan sex á fullt Grin. Herbinn er mér við hlið og hjálpar mér að halda fókus og gefa mér súper góða næringu í réttum hlutföllum.

 Landsmót á Höfn á morgun um Verslunarmannahelgina og það verður stuð og vonandi ekki mjög blautt.

Yfir og út 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband