Allt á réttu róli...

Jæja, nú er kvefið á undanhaldi að mestu leyti. Börnin fengu sinn skammt en hjartakarlinn hefur sloppið sem betur fer.  Í dag gerði ég loksins sólarhyllinguna í jóganu og gekk upp á Byrgisneshæð þegar rigningunni slotaði. Ég fer rólega af stað að sjálfsögðu og hlusta á líkamann.  Núna er smá skveringarplan í gangi því hreyfingarleysi veikindanna hafa hlaðið einhverju ósækilegu utan á vömbina á kerlu.  Í gær þegar ég mátaði jarðarfararjakkann var hann örlítið þrengri en æskilegt er. 

Tengdapabbi kvaddi þessa tilvist aðfararnótt 5. júlí eftir stutt veikindi.  Það var gott að hann fékk að fara blessaður því lífsneistinn var orðinn lítill. Við fórum norður um helgina og hittum fólkið okkar og lögðum drög að jarðarförinni.  Stjáni í Ameríku og Ella í Noregi fá ekki flug fyrr en í fyrsta lagi 18. júlí og koma þá og annað hvort verður jarðað föstudaginn 19. eða strax eftir þá helgi.  

Við vorum upphaflega á leið á Símamót og brottför áætluð þann 17. en í staðinn tjöldum við í bílastæðinu hjá tengdó og sofum þar dagana sem við verðum fyrir norðan. Snæfellsnes verður líka geymt, við ætluðum að visitera það í framhaldi af Símamóti. Það fer ekkert Smile

Kórfólkinu (okkur Jósef) var falið að setja saman söngskrána og þá kom sér vel að tengdamamma hendir engu, við höfðum úr nógu að moða við að finna sálmana.  Við settum saman lög og sálma sem okkur taldist til að hefði hugnast tengdapabba sem var söngmaður og söng lengi í kirkjukór.  Það held ég að Sollan fari að skæla þegar Maístjarnan verður sungin og svo Tvær stjörnur eftir Megas en hann var hrifinn af textum Megasar og Maístjarnan var honum hugleikin.  Við erum ekki búin að ákveða með forspilið, pælingin var að spila King of the road sem var í miklu uppáhaldi og það skýrist í vikunni hvort það hentar. Útspilið verður að sjálfsöðu Internationalen enda sá gamli harður kommúnisti og vel við hæfi að hann fari síðasta spölinn undir því undirspili. 

Þessa vikuna verð ég á Salthúsmarkaðnum mán-fim. og um helgina brunum við Dýrunn í Egilsstaði á Sumarhátíð ÚÍA. Við ætlum að koma heim eftir keppni til að ná smá broti af Pólar hátíðinni og Maður er manns gaman.  Jurtate komið í brúsa, prjónarnir í poka, búið að taka fram föðurlandið og lopapeysuna og þá er ég klár í fjörið á markaðnum.  

Yfir og út í bili...... 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband