Sumarkvef
Laugardagur, 29. júní 2013
Ég státa mig iðulega af því að fá ekki kvef og pestir almennt. Mest því ég ákveð að ég fái ekki kvef og pestir og svo næri ég skrokkinn með andoxurum sem berjast á svona veirum. Svo gerist það stundum að helstu jaxlarnir falla í valinn og þannig er staðan hér á bæ núna.
Hósti, hor, hálsbólga, stíflað nef og lítill svefn er aðalsmerki mitt þessa dagana. Ég er samt ekkert veik, bara slöpp . Ég viðurkenni samt að ég var veik á miðvikudag og fimmtudag og hálfpartinn líka í gær.
Þessa elsku sótti ég alla leið til Akureyrar. Já fyrir tveimur vikum fór ég að finna fyrir smá hori í nös þegar ég var með Dýrunni í fótboltaferðinni. Áfram var það bara hor í nös og um síðustu helgi fórum við í útilegu í Höfðavík. Þá fór bragðskynið eitthvað að dofna á föstudagskvöldinu. Það kom nú að hluta þegar ég smelli í mig koníak snafsi. Ég var ekkert slöpp, bara smá kvefuð. Lyktarskynið hefur ekki mætt að fullu aftur.
Ég var búin að skrá mig á Salthúsmarkaðinn og var þar í mínu ullardressi (því það er kalt þar) í tvo daga. Ég fann á þriðjudag að ég var eitthvað undarlegri en vant var og sleppti því að fara í göngu með Göngufélaginu í Breiðdalnum um kvöldið. Á miðvikudag var kerlan fallin.
Síðan þá hef ég drukkið reiðinnar býsn af heitu te, og kanill, engifer og sítrónur eru uppistaðan í drykkjarvörum mínum og ég er á hægum batavegi. Ég hósta og spýti hor vinstri hægri (í klósettið), svitna eins og mér sé borgað fyrir það en finn ekki lyktina, kostur fyrir mig.
Ég fór á sjálfsögðu á netið og fann jógaæfingar sem geta létt á þunganum í hausnum. Þær náði ég að gera í gær og það létti á. Ég geri því annan skammt í dag, kannski tvo . Ég er að klikkast á því að komast ekki í góðan göngutúr eða geta gert almennilegt jóga
Mitt í þessu stuði hafa staðið yfir gluggísetningar með tilheyrandi ryki, sagi og ógeði. Á milli slökunarstunda hefur tuskan verið á lofti, ryksugan munduð og að sjálfsögðu þvær þvotturinn sig ekki sjálfur heldur né hleypur sængurverið af og á sængurnar af sjálfu sér. Einnig hafa nokkrar pönnukökur verið steiktar en Dýrunn mín elskuleg gerði vöfflur og hefur verið mér afar hjálpleg.
Svo hneykslaðist ég á því í vetur þegar ég las dagbók frá móður minni síðan ég var lítil þar sem hún sagðist vera lasin en hún skrönglaðist samt úr bælinu í hádeginu og fyrir kvöldmat til að elda handa heimilisfólkinu. Ég er kannski ekkert skárri - en common, það er ekki hægt að liggja í bælinu endalaust.
Athugasemdir
Þú átt alla mína samúð..Góðan bata
Áslaug (IP-tala skráð) 30.6.2013 kl. 00:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.