Smá frí...

Já það má segja að ég hafi tekið frí á fleiri en einum vettvangi upp á síðkastið.  Það var svo notalegt í fríinu okkar á Akureyri að ég gleymdi að blogga þó talvan væri með í för. 

Við lögðum í hann upp úr hádegi 7. júní þegar Friðrik hafði lokið vinnu í vinnuskólanum eins og það heitir í dag, ég segi reyndar alltaf bæjarvinnan af gömlum vana.  Eins og vanalega brunuðum við beint í bæinn, engin óþarfa stopp nema rétt til að pissa á Mývatni þar sem ég tók sprettinn til að ná á settið á undan kerlunum í rútunni sem var að leggja upp að á svipuðum tíma og við. Ég var á undan.

Okkur hafði boðist að passa hús Begga bróður (Jósefs) og litla dýrið sem þau voru nýbúin að fá sér. Það var mjög notalegt.

Upp úr hálf átta vorum við svo komin í Hof til að hlýða á tónleika með Ian Anderson og hljómsveit spila "best of Jethro Tull".  Það voru þrusu tónleikar en ég komst að því að ég hafði ekki hlustað á margar plötur því þeir spiluðu mörg lög sem ég kannaðist ekkert við Smile. Ian gamli er ótrúlegur, hoppar um sviðið og blæs ekki úr nös þó hann taki þvílíku sólóin á þverflautuna. Hann er aðeins farinn að tapa tónsviðinu í söngnum en einhvern veginn horfði maður framhjá því.  Egill Ólafsson kom og söng í einu lagi og ungur fiðluleikari spilaði líka sem ég man ekki hvað heitir. Þeir tóku Brúðkaupsvísur Þursaflokksins svo snilldarlega að það var hrollur upp og niður hryggsúluna hvað eftir annað.  Enduðu svo með svaka látum og þá var Egill og unga fiðluskvísan líka með. Magnað. 

Eftir tónleikana smelltum við okkur á Götubarinn og fengum okkur tvo drykki og skáluðum fyrir árunum okkar tíu í hjónabandi en við vorum þarna komin yfir á 8. júní sem er brúðkaupsdagurinn okkar. Við hittum góða Austfirðinga sem voru á tónleikunum og áttum góða stund með þeim.  Vorum samt komin heim á skikkanlegum tíma.

Síðan tóku við blíðu, sælu og sólardagar. Planið hafði verið að fara út í Hrísey en einhvern veginn datt það út af kortinu. Við höfðum það mjög náðugt, sóluðum okkur og fórum í nokkra göngutúra í Kjarnaskógi.

Jósef og Frikki yfirgáfu okkur á miðvikudegi en við mæðgur héldum áfram að slaka á. Ég var nokkuð dugleg að gera jóga á morgnana og stundun seinnipartinn líka og fór í einn dásamlegan jógatíma hjá einum uppáhalds kennaranum mínum á Akureyri.

Stjáni bróðir Jósefs og dóttir hans sem búa í Alabama komu um svipað leyti og við norður og þær frænkur og nöfnur, Dýrunn og Hanna Dýrunn náðu að kynnast.  Ella systir kom sömuleiðis í stutt stopp frá Noregi og það náðist að halda einn fjölskylduhitting og sá gamli kom heim af hjúkrunarheimilinu smá stund.

Við Dýrunn skelltum okkur í siglingu með Ambassador hvalaskoðunarskipinu og Stjáni og Hanna Dýrunn skelltu sér með. Við sáum tvo Hnúfubaka og annar þeirra var nokkuð nálægt og sýndi sig oft en hinn var frekar feiminn og kafaði bara. Þetta var mjög gaman og veðrið yndislegt.

Á laugardeginum kvöddum við norðanfólkið og hittum liðið hennar Dýrunnar sem kom með rútu frá Reyðarfirði þann morgun. Leiðin lá á Krókinn og mér finnst ég alltaf svolítið vera að koma heim þegar ég kem þangað.  Fyrra liðið náði jafntefli eftir hörku leik en Dýrunnar lið tapaði 4-2 eftir álíka hörkuleik sem hefði getað farið okkur í hag ef markið hefði verið á réttum stað þegar skotið var.

Við snæddum pizzur á Kaffi Krók og héldum svo til Akueyrar og gistum í Hamri, Þórsheimilinu. Tvö drengjalið voru með í för og þeir kepptu fyrir hádegi og svo var brunað af stað til Húsavíkur. Þar kepptu stelpurnar tvo leiki og náðu sigri í þeim báðum. Dýrunn sem yfirleitt spilar vörn var sett á kantinn í lok leiks og hún átti snilldar hlaup með boltann upp kantinn, skaut svo í von og óvon og boltinn endaði snilldarlega í netinu. Hún var svo hissa að hún vissi ekki hvað hún átti að gera en ég lyftist nokkra sentimetra frá jörðu þar sem ég sat í brekkunni þegar ég fagnaði.  

Heim komumst við svo seint og um síðir. Rútan var þvílíkt skrapatól og komst varla upp brekkurnar en við komumst á leiðarenda fyrir rest.  

Nú ætti eiginlega að taka við tiltekt og sollis en ég er að spá í að geyma hana aðeins. Hún hefur aldrei hlaupið frá mér.  Í næsta pistli segi ég frá krílinu sem við pössuðum í Beggahúsi og birti myndir.

 

Yfir og út  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband