Brá mér af bæ og þá grænkaði grasið
Þriðjudagur, 14. maí 2013
Þegar við renndum inn fyrir borgarmörkin á föstudagskvöld var eitt það fyrsta sem við tókum eftir hvað gróðurinn er lengra á veg kominn þar en hér heima. Það eru engin ný sannindi. Hins vegar þegar við komum heim eftir fjögurra daga fjarveru og að mér skilst einhverjar rigningar hér austan megin þá blasi við iðagrænn garður. Jósef hafði á orði að það þyrfti að fara að slá og ég sem er ekki búin að setja áburðinn á ennþá.
Dvölin í höfuðborginni var ljúf. Við höfðum aðsetur á Lambastaðabrautinni góðu. Við tókum tvöföldu vindsængina með og við gömlu ætluðum að sofa í stofu/elhúsinu svo börnin vöknuðu ekki við bröltið í okkur á morgnana. Þess gerðist ekki þörf því ungarnir risu út rekkju á svipuðum tíma og foreldrarnir. Eftir fyrstu nótt á vindsænginni skipti Jósef við Dýrunni og hún svaf hjá mér þær tvær síðari. Svolítill munur á brölti og ef hún hefði verið þyngri hefði ég skoppað eins og skopparakringla hálfa nóttina.
Við afrekuðum margt og mikið. Fórum í agalega fáar heimsóknir og það verður bara að hafa það. Ég hlóð Herbalifebatteríin mín á laugardeginum með Hildi minni bestustu og það var ljúft. Gaman að hitta gamla refi og sjá óendanlega mikið af nýjum andlitum. Sjá allt það fólk sem hefur bætt heilsu sína og líðan með breyttri næringu, fá súper fræðslu frá fyrrum ólympíumfara Samönthu Clayton og svo líka frá öðrum kappa Burton að nafni.
Jósef, Dýrunn og Friðrik fóru í Smáralindina á meðan. Þar púffaði Frikki frammi á göngunum meðan Dýrunn leitaði að því sem efst var á óskalistanum. Hún fann ekki alveg allt blessunin en var samt sæl með sitt.
Seinnipart laugardags brunuðum við svo á Selfoss í fermingarveislu hjá Jónínu Jóa og Þórönnu. Það var megin tilgangur ferðarinnar. Þar svignuðu borð undan kræsingunum og þar sátum við góða stund og átum vel og lengi. Fermingarstúlkan var sæl með sitt og saman voru þau mynduð fjögur; Jónína, Friðrik, Eyþór og Magnea, fermingarárgangurinn eins og við kölluðum þau alltaf sem náðu því miður ekki að fermast saman.
Sunnudagurinn hófst með sundferð og nú prófuðum við sundlaugina á Álftanesi. Mjög fín og notaleg og gaman að prófa öldulaugina. Þar fær búningsaðstaðan topp einkunn, þvílíkt rými og þægilegt að þurfa ekki að hliðra sér fyrir einum eða neinum eða rekast utan í bera bossa. Svo fékk ég fullt af freknum því sólin skein blítt, reyndar ekki í búningsklefanum.
Eftir það útréttuðum við aðeins. Snæddum hádegisverð í Ikea og keyptum okkur nýtt matarstell ásamt fleiru, fórum í Sportsdirect og Rúmfó. Langþráðar myrkvunargardínur voru keyptar fyrir glugga krakkanna. Dýrunn greyið vaknar lon og don í hitabaði þegar sólin skín enda snýr annar glugginn hennar í austur.
Sóli og Hafdís elduðu dýrindis læri og við vörðum sunnudagskvöldinu með þeim í Keflavíkinni.
Svo var brunað heim, í blíðu framan af en svo þykknaði upp og dropar duttu fyrir alvöru í lóninu og það sem eftir var. Ég hafði nýja koddann minn undir botninum og það er líklega málið. Ég var ekki eins stirð eftir setuna þegar heim var komið og á suðurleið.
Við komum við í Kambi og hittum Jón í fyrsta sinn. Ég fékk titilinn langamma því Ríkharður tók feil þegar ég hringdi til að athuga hvort þau væru heima. Þegar hann var búinn að átta sig á að ég væri nú ekki langamma þá breyttist það í amma. Það er góður titill. Þau voru svo spennt og sýndu okkur allt sitt og að sjálfsögðu litla bróður. Jónína var búin að perla handa stóru frændsystkinunum sínum og gaf þeim með stolti. Henni finnst ekkert smá flott að eiga svona stóra frænku og frænda.
Áður en heim var brunað nærðum við okkur við Voginn. Hammari var það heillin, já sá fyrsti í ferðinni. Hann rann ljúflega niður.
Heima er vissulega best og Sóla tók á móti okkur og vissi hvorki hvort hún ætti að vera úti eða inni. Þannig er það iðulega þegar við höfum verið fjarverandi og hún ein heima.
Vorverkin í garðinum verða vonandi unnin á næstu dögum ehemm... Það gengur eitthvað hægt í þeim geira, hálfklipptir runnar og þar fram eftir götunum. Tölum ekki meira um það eins og Kjartan Vilbergs sagi stundum.
Yfir og út inn í vorið...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.