Ó blessuð vertu sumarsól
Fimmtudagur, 2. maí 2013
Það má með sanni segja að vetrar, vor og jafnvel sumarsól hafi skinið á okkur síðustu vikur með litlum hléum.
Í lok Einarsvöku í Heydalakirkju á sumardaginn fyrsta sungum við í lokin "Ó blessuð vertu sumarsól". Einhvern tíman lærði ég þetta í skóla en er orðin mjög ryðguð, sérstaklega í miðjunni. Ég mæmaði því og elti og las í örvæntingu af vörum Daníels kórstjóra. Frekar pínlegt standandi fyrir framan kirkjugesti. Þá einsetti ég mér að vera búin að læra textann fyrir sumardaginn fyrsta á næsta ári.
Á þriðjudag fór ég á tónleika hér í kirkjunni með karlakórnum Drífanda. Mjög skemmtilegir tónleikar og ég fæ nettan hroll þegar tuttugu og eitthvað karlar blasta upp á hæstu nótum. Hvað haldið þið að hafi verið gert í lokin ?? Jú allir stóðu upp og sungu "Ó blessuð vertu sumarsól". Ég hefði betur lært textann strax. Ég held samt að fleiri hafi verið ryðgaðir, mér sýndust sumir kórfélagar hreyfa varirnar ekki alltaf í takt við textann.
En talandi um að læra texta. Sumum í okkar kór gengur alltaf illa að læra texta utanbókar og eru þar af leiðandi mjög bundnir við möppurnar þegar sungið er. Allt annað að sjá og heyra í kór þegar kórinn er möppulaus og menn horfa á stjórnandann og hann getur þá stjórnað kórnum. Þeir voru mis möppulausir þarna hjá Drífanda en elstu karlarnir héldu á sínum möppum og opnuðu þær aldrei. Frábært.
Þegar ég fór með Selkórnum til Ítalíu um árið þurftum við að læra allt prógrammið utanbókar, á íslensku, latínu og ítölsku. Ótrúlega strembið og kallaði á heilmikla heimavinnu en mikið var gaman að syngja á öllum þeim stöðum sem við sungum á.
Yfir og út með sumarsól og söng í hjarta þó hitamælirinn sýni eitthvað annað en vorhita.
Athugasemdir
Las mér næstum til óbóta hér á síðunni þinni þar sem ég hef ekki gefið mér tíma til að „heimsækja” þig í dulítinn tíma. Vona að sumarið sé loksins komið og að gróðurinn fari að taka við sér. Aðdragandinn hefur verið óvenju langur þetta árið.
Knús og sumarkveðjur, yfir landið.
Halllan (IP-tala skráð) 13.5.2013 kl. 22:32
Stundum er gaman að safna upp og lesa í skorpum. Ég á það til líka :). Meðan ég skrapp suður grænkaði hressilega í garðinum hjá okkur. Vorið er komið hversu hlýtt sem það verður.
Ég sjálf (IP-tala skráð) 14.5.2013 kl. 06:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.