Slökunarpokar
Mánudagur, 22. apríl 2013
Fyrir 2-3 þremur árum fór ég í jóga á Akureyri sem er ekki í frásögur færandi. Þá fékk ég svo dásamlegan lítinn poka yfir andlitið í slökuninni og það var þvílíkt þægilegt. Síðan þá hef ég haft á bak við eyrað að sauma svona poka og þökk sé Sólrúnu skellti ég mér af stað. Það er oft silki eða satín í svona pokum og ég er auðvitað búin að koma öllum satínslæðum í Rauða krossinn svo ég komst aldrei af stað. Sólrún gaf okkur mæðgum smá silkibúta og við máluðum listilega með silkilitunum frá mömmu. Dýrunn hefur hug á að nota sína í augnleppana sem hún er að sauma og ég náði að sauma fimm poka úr þessu silki. Þetta er eitthvað sem ég get dundað við, passlega stutt seta við saumavélina og allt.
Í pokunum eru hörfræ og lavender. Í hörfræjunum er góð olía og lavender er auðvitað þekkt fyrir slakandi eiginleika sína. Að liggja með svona poka yfir augunum og slaka á lokar fyrir allt sjónrænt áreiti og við náum miklu betri slökun.
Ég ætla að framleiða meira og athuga hvort einhverjir hafa áhuga á að fjárfesta í slíkum pokum. Hér er sýnishorn af fyrstu þremur pokunum. Þið finnið ekki ilminn af Lavender en hann fer með mann ég veit ekki hvert..... á einhvern góðan stað í það minnsta. Ég hef hug á að selja þá fyrst í stað á 1500 kr. og hugsa að það dekki kostnað og nokkrar krónur í vinnulaun. Það er hægt að leggja inn pantanir og ef ég sendi í pósti þá greiðir viðtakandi sendingarkostnað. Ohm Shanti.
Athugasemdir
Algjör dásemd. Fékk mígrenikast í gær með sjóntruflunum og tilheyrandi. Lagðist í rúmið með litríkan, ilmandi poka yfir augunum, sofnaði aðeins og leið svo bara miklu betur.
Sólrún (IP-tala skráð) 24.4.2013 kl. 20:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.