Fjarðaálsmót og átpælingar :)
Mánudagur, 15. apríl 2013
Frikki keppti á 4. flokks Fjarðaálsmótinu um helgina. Við Dýrunn horfðum á fyrsta leik á laugardag og brunuðum svo heim því skvísan átti bókað far með rútu í Héraðið á svokallað TTT mót í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum. Eftir fyrsta dag, tvo sigra og eitt tap var kúturinn frekar stífur og stirður, heitt bað og iljanudd sló aðeins á og kappinn stakk sér snemma undir sæng.
Þeir feðgar lögðu síðan af stað í býtið morguninn eftir og ég leyfði mér að vera löt og sleppa fyrsta leik. Við Gurra fórum svo undir hádegi og náðum næstu tveimur leikjum hjá köppunum okkar. Ekki riðu þeir feitum hesti frá þessari keppni, náðu þriðja sæti og voru hreinlega ekki betri en það. Samt sáttir.
Við Gurra vorum síðan á þrif vakt í skólanum og ásamt nokkrum fótboltapöbbum komum við skólanum á Rfj. í þokkalegt stand eftir gistingu helgarinnar. Það gekk fljótt og vel.
Nú líða tvær helgar þar til Dýrunn keppir á sama móti og alveg eins líklegt að Frikki verði beðinn um að keppa með 3. flokki um helgina en þá er engin vakt hjá mér
Dýrunn var mjög ánægð með TTT mótið. Hún og Kolbrún gistu með stelpunum frá Breiðdalsvík. Þær ná vel saman. Það var ýmislegt brallað og Dýrunn talaði frá því hún kom heim og þar til ég sagði henni að drífa sig í að bursta tennurnar og í háttinn.
Það er eins og við manninn mælt að þegar ég eyk hreyfinguna örlítið þá eykst matarlystin. Það er mjög rökrétt enda er komin meiri brennsla í kerfið. Sykurfráhaldið hefur gengið mjög vel og ég hef að mestu sneitt frá brauðinu með hvíta hveitinu. Er svona að finna minn meðalveg í þeim málum. En þegar ég dreg úr sykurneyslu þá langar mig í eitthvað salt. Ég lét það barasta eftir mér og keypti mér smá snakkerí á föstudaginn, naut þess í botn, alsæl.
Nýi DVD einkaþjálfarinn hefur hafið störf og þar eru æfingar sem koma mér mjög vel. Þær eru góðar fyrir ýmsa litla vöðva sem ég þarf að styrkja, í öxlum og mjöðmum og tekur ekki langan tíma. Frábær blanda með jóganu. Í morgun gekk ég út á Byrgisnes og gerði svo æfingar. Mjöðmin kvartar þegar ég fer á göngu, ég stytti gönguna svo ég sé ekki farin að finna mikið til þegar göngu lýkur. Hægri öxlin er að skána og ég stefni á að gera hana enn betri. Þegar loftihitinn hækkar smelli ég mér á hjólið, ef Friðrik tímir að lána mér hjólið sitt. Planið var að kaupa hjól með vorinu en það er ekki alveg á fjárhagsáætlun svona fljótt eftir fermingu.
Það er líka gott að hvílast og nú ætla ég að daðra aðeins við hana Camillu mína Läckberg áður en ég tek til við þvottinn og vefjubakstur
Tvöfaldur jógatími seinnipartinn, júhú.....
Yfir og út ....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.