Ferming Frikka


Dagurinn rann upp bjartur og fagur. Undirbúningur svo til búinn daginn áður og örlitlar fíniseringar eftir. Um eittleytið hjálpaði Agnes mér í upphlutinn og krækti þar sem hægt var að krækja og nældi þar sem ekki náðist að krækja.  Frikki skellti sér í múnderinguna og var mjög reffilegur í fermingardressinu.  
 
Athöfnin gekk mjög vel, kórinn mannaður 15 söngvurum sem sungu af hjartans list í öllum röddum. Það var dásamlegt að sitja frammi í kirkju og hlusta. Ég held að brosið hafi ekki dottið af mér allan tímann. Drengirnir skiluðu sínu með sóma og voru gífurlega flottir þarna uppi við altarið.  Skírðir saman og fermdir saman, bundnir órjúfanlegum böndum og góðir vinir.  
 
Við rétt brugðum okkur heim og ég skipti um dress því ég hefði verið komin í andnauð í spennitreyju upphlutsins þegar á daginn hefði liðið.  Smellti mér í rauðbleika kjólinn sem ég verslaði í Mannheim fyrir þetta tilefni.
 
Allt var á suðupunkti niðri í Kaffi Söxu og kokkurinn farinn að svitna yfir því að þetta hefðist ekki í tíma. Þá komu ýmsar hendur sem hjálpuðu til, skáru niður grænmeti í salatið, skáru brauðið niður og ýmislegt. Þessar sömu hendur og fleiri til hjálpuðu okkur svo í veislunni svo við gátum notið þess að spjalla við fólk í stað þess að vera sífellt á þönum.
 
Hálf fimm byrjaði fólk að streyma að og brátt var setið við öll borð. Þá hófum við veisluna með því að Jósef og Friðrik spiluðu tvö lög. Friðrik spilaði að sjálfsögðu á nýja gítarinn sem við gáfum honum af þessu tilefni.  
 
Veislan var ljúf, fólk gaf sér tíma til að spjalla við vini og ættingja sem það hafði ekki hitt lengi og enginn þurfti að standa upp til að rýma fyrir fleiri gestum.  Við fengum góðar hendur við frágang og niðurpökkun á afgöngum sem leystar voru út með afgöngum. Við þurfum því ekki að borða þá í marga daga.  
 
Sólmundur og Agnes stigu á stokk um miðja veislu og spiluðu saman nokkur lög, hann á gítar og hún á fiðluna sína. Það var ljúft.  
 
Um kvöldið opnaði fermingardrengurinn gjafirnar sínar með nokkrum nánum fjölskyldumeðlimum.  Úr pökkunum komu góðar og nytsamar gjafir og úr umslögunum hellingur af pening. Hann fékk gítarinn frá okkur og statíf fyrir hann frá Dýrunni.  Einnig fékk hann hnattlíkan lampa, bókina "Stuð vors lands", Tvö ilmvötn, gítareffect, hálsmen, Humör buxur, svefnpoka og langþráðan síma.  Mér þótti nú nóg um hvað sumir voru rausnarlegir í peningagjöfum og svitnaði hálfpartinn yfir öllu saman. Þakklát fyrir hlýhug fólks. 
 
Síðan þá höfum við gert mest lítið. Slappað af og borðað afganga. Sumir eru glaðir yfir því hve mikið gos var eftir en í því liði er ég ekki.
 
Í gær brunuðum við svo í Egilsstaði og leyfðum kappanum að versla sér langþráðan tölvuskjá og þráðlaus heyrnartól með míkrafón. Kannski sjáum við hann ekki meir því síðan þá hefur hann dvalið langdvölum í herbergi sínu. Eitthvað bras er með hljóðið en það finnst örugglega lausn á því.
 
Stór hluti fermingarpeninganna fer á framtíðarreikning og hann getur nýtt það upp í bílprófið eða skóla.
 
Dýrunn er búin að skipuleggja ferminguna sína svo það verður pís of cake að framreiða hana.  Linda Viðars hlakkar líka til og ef aðstæður leyfa verður hún sko örugglega yfirkokkurinn aftur.  
 
Það var yndislegt að fá alla þá austur sem lögðu land undir fót og það var drjúgur slatti Smile vina og ættingja. 
 
Yfir og út.....
 
Eyþór og Friðrik
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 Flottur
 
Sker tertunaFjölskyldan
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband