Af fermingarundirbúningi
Mánudagur, 18. mars 2013
Já þó ég hafi nú hingað til haft gaman af bakstri og eldamennsku þá ákváðum við hjónakorn að fá fagmenn í ákveðinn hluta undirbúningsins, þ.e. eldamennskuna. Bóndinn lítið fyrir svona verk og skrokksi hjá kerlu ekki í standi í svona stapp. Gott mál. Ég er líka með fagmann/konu í kransakökugerð og Maja mín kemur með endapunkta. Nú hvað er þá eftir? Sjálf fermingartertan, marengsterta og kransatoppar, jú og snittubrauð.
Við Dýrunn byrjuðum á toppunum í gær. Dýrunn sá um berin og ég rembdist við að sprauta stífu deiginu í toppa, lá við að ég þyrfti kraftakarl í það. Ekki hentaði alveg að baka þá á blæstri og þeir urðu misbakaðir, svo ég skellti á undir og yfirhita og þá fór bara ein plata í ofninn. Ég gleymdi mér að sjálfsögðu og sú plata varð frekar dökk yfirlitum. Sú næsta og jafnframt síðasta í þessari umferð var bara skást. Ég tel mig nú samt geta nýtt svona 2/3 af þessum skammti og það er komið í frost. Ætla að glíma við annann skammt aftur.
Nú þá kemur að fermingartertunni. Svampbotnar eru ekkert mál en þessi sem er á plötunni núna nýbakaður og "fínn" er ósköp framlár greyið og mér sýnist hann pikkfastur við pappírinn. Þá gleðjast börnin því þau taka svona mistökum vel (já það er sjaldan bakkelsi hér á borðum) og mislukkuðu topparnir runnu ofan í mannskapinn í gær.
Ég ætla því að skunda til Ástu minnar grönnu og fá skothelda uppskrift svo þetta klikki ekki. Eins gott að hænurnar í Hvammi verpi af fullum krafti á næstunni svo ég hafi nóg af eggjum.
Við erum búin að smakka prufuskammt af fyllingunni í tertuna og jummí, hún verður bragðgóð.
Búið að finna mynd á kökuna, Jósef leitar að humri og ég pússla saman myndum í smá myndashow í tölvunni. Allt á réttu róli. Ekkert stress og mikið verður gaman að gleðjast með fólkinu sínu þennan flotta dag
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.