Döner, postulínið og rip off
Fimmtudagur, 14. febrúar 2013
Í gær höfðum við eldamennskuna mjög einfalda. Splæstum í Döner sem er eitt það allra besta sem ég fæ í Þýskalandi og algjört must að fá sér í það minnsta einu sinni í hverri för. Hann er stútfullur af grænmeti og ekkert of djúsí.
Við borðuðum frekar seint svo ég var södd fram eftir kvöldi, svaf frekar órólega, var líka að hlusta eftir lífsmörkum hjá bóndanum. Um þrjúleytið skreiddist ég á settið, ætlaði nú fyrst bara að fá mér vatnssopa. Sú dvöl lengdist því á kerlunni spratt fram kaldur sviti og mikil ógleði. Ótrúlegt að hægt sé að svitna svona en vera samt ískaldur. Þar sat ég í góðan klukkutíma, skalf og gaf fiskunum að borða. Sem betur fer bara Gullfoss útgáfuna. Skreið svo í bólið og náði að lúra fram á morgun. Enn eru ónot í mallanum og skrokksi linur og þreyttur og fiskarnir fá meira fæði í dag, það er nokkuð ljóst. Árni finnur líka fyrir magaverkjum og er slappur, spurning hvort þetta tengist Dönernum góða eða hvað. Mér varð hugsað til þess að ég hefði átt að vera búin að spritta hendurnar á mér aðeins meira síðustu daga því ég gerði það samviskusamlega við hverja inn og útgöngu á spítalanum.
Hjartakarlinn er bara hress, smá hósti í honum en við fengum bæði í okkur einhverja hálsbólgu og smá hósta með því í fyrradag.
En svo bregðast krosstré sem önnur tré og ég býst við að fletið verði mest bælt í dag, með góða bók sér við hönd og reglulegum ferðum á settið. Ónæmiskerfið hjá kerlu hefur eitthvað veiklast við þetta álag og stress.
Við skoðuðum flug heim í gær og Jósef var agalega ánægður með verðið þar til í ljós kom að þetta var verð fyrir einn. Þegar ég flaug sl laugardag greiddi ég 80 þús fyrir tvö flug á leið minni til Frankfurt, sunnudagsflugið var beint og hefði kostað 60 þúsund. Viku síðar kostar rúman 100 þús kall á mann að fljúga sama dag. Já þetta kalla ég rip off. Ég hélt að Flugfélag Íslands myndi toppa allt en hef nú séð og reynt annað. Þá er gott að vera vel tryggður.
Yfir og út og enginn Döner í dag
Athugasemdir
Sæl mín kæra. Nú mundi ég aftur slóðina að blogginu og sé að ég hef misst af nokkrum færslum. Vonandi þú að hressast af pestinni. Bestu kveðjur til ykkar allra!
Sólrún (IP-tala skráð) 15.2.2013 kl. 07:23
Mikið er gott að fá að fylgjast með ykkur hér.
Gangi ykkur áfram vel,
Kærar kveðja,
Díana Mjöll.
Díana Mjöll (IP-tala skráð) 15.2.2013 kl. 10:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.