Þegar tilveran snýst á hvolf
Sunnudagur, 10. febrúar 2013
Á fimmtudagsmorgun snérist tilveran hressilega á hvolf. Í hugleiðslunni minni ákvað ég að þetta yrði enn einn góður dagur. Þetta var öðruvísi dagur í skólanum því elstu krakkarnir voru fjarverandi. Fyrsta holl hjá mér var því mjög rólegt.
Ég var því við símann þegar Halla hringdi og tilkynnti mér að pabbi hennar væri kominn á spítala í Ludwigshafen, hefði fengið verk fyrir hjartað og væri kominn í hjartaþræðingu.
Ég fór heim eftir að hafa sagt samstarfsfólki mínu fréttirnar og ætlaði aðeins að skreppa. Ég fór að sjálfsögðu ekki í vinnuna aftur því við tók þvílíkur tilfinningarússíbani að það hálfa hefði verið hellingur. Táradalurinn tæmdur reglulega en alltaf fylltist hann reglulega yfir daginn aftur og tæmdist. Svo hringingar út og suður, í nánasta slektið, yfirmann í vinnu og nánustu vini.
Síðan tók biðin við og hún er skelfileg og nagandi og ennþá skelfilegri þegar höf skilja að. Ég get sagt ykkur að þetta er vont og það venst ekki. Nú er kominn sunnudagsmorgun og mér finnst eins og eilífð síðan þetta gerðist.
Ég ákvað um kvöldið að fara út og pantaði mér flug - já eins gott að það var heimild á kortinu segi ég. Ég flaug suður um hádegisbil á föstudegi og svo út í bítið næsta morgun. Átti dásemdardvöl hjá Sóla og Hafdísi sem tók mig í ondúleringu svo ég væri ekki alveg eins og draugur til augnanna þarna í Þýskalandinu og hitti Hildi mína og Petreu.
Laugardagur er einn af fáum dögum þar sem ekki er flogið beint til Frankfurt svo ég smellti mér til Köben og beið þar í tvo og hálfan tíma eftir næsta flugi. Eftir smá ísingarbið komumst við í loftið og ég lenti í Frankfurt rúmlega fimm. Halla beið eftir mér. Hún er búin að vera aðgjör klettur fyrir pabba sinn og dugleg að tala fyrir hans hönd. Við brunuðum á Autobananum til Ludwigshafen og rúmum klukkutíma frá lendingu var ég kominn upp á sjúkrahús, með stuttri viðkomu hér hjá Höllu og ÁRna.
Það var gaman að sjá litlu mús örstutt sem var orðin iðandi í skinninu af hreyfiþörf því öll hennar rútína hefur riðlast sl. tvo daga. Karlinn var ósköp ánægður að hitta spúsu sína og hún sömuleiðis. Hann bar sig vel líkt og venjulega en er slappur og kraftlítill, skiljanlega.
Staðan er sú að við svona síendurtekin áföll minnkar geta hjartans til að vinna vinnuna sína. Tekin hefur verið ákvörðun um að setja gangráð í hann. Hann er orðinn sáttur við þá ákvörðun. Nú stendur málið í pælingum hvort hann verður settur upp hér eða hvort hann fer heim og þá þarf líklega sjúkravél, lækni og alls konar tól og tæki með.
Alltaf er verið að spá í kostnað og það er jafnvel verið að pæla hvort hægt sé að brenna fyrir eitthvað svo hann geti farið sjálfur í flug heim og svo í aðgerðina þar. Það hugnast mér ekki bara áhættunnar vegna og ekki er freistandi að hugsa til þess ef ekki semst við hjúkrunarfræðinga á næstunni.
Við eigum eftir að fá almennilegan fund með læknunum og fara yfir málið. Já þetta er í grófum dráttum staðan eins og hún er núna.
Í dag er rólegt því það er sunnudagur. Hann hvílir sig áfram og safnar kröftum. Ég ætla að rölta til hans um níuleytið og stytta honum stundir. Staðsetning Höllu og Árna gæti ekki verið betri. Þau búa nánast við hliðina á spítalanum og það tekur þrjár mínútur að rölta yfir. Það er því hægt að skjótast stund og stund og leyfa honum að hvíla sig á milli.
Árni keppir í dag og ég ætla að skella mér á völlinn með Höllu og Helenu Emmu. Jósef verður bara að fá mína upplifun í æð og við treystum að guð og gæfan gefi að hann komist sjálfur á leik í náinni framtíð.
Ég smelli inn færslum eftir því hvað dregur til tíðinda hjá honum. Já, við ætlum líka að baka bollur. Árni varð ekki lítið glaður þegar ég stakk upp á því og hljóp út á bensínstöð til að kaupa rjóma, hér eru búðir nefnilega lokaðar á sunnudögum. Yfir og út.
Athugasemdir
Elsku Solla og fjölskylda
Sendi ykkur alla mína orkustrauma, er búin að hugsa til ykkar á hverjum degi. Glöð að heyra að það er komin niðurstaða í málið. Getur þú ekki bara verið frek og heimtað að þetta verði gert úti???
Gangi ykkur vel
Dóra
Dóra (IP-tala skráð) 10.2.2013 kl. 16:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.