Pistillinn !!
Miðvikudagur, 12. desember 2012
Jólapistill í Hólalandi á aðventu 2012
Þegar ég sest niður og rita pistilinn þetta árið fyrir Hólalandsgengið finnst mér eins og ég sé ný staðin upp frá því að rita síðasta bréf.
Tíminn flýgur svo sannarlega, já líka hér í fámenninu enda hafa allir meira en nóg á sinni könnu og vel það á stundum.
Byrjum á börnunum þetta árið.
Dýrunn Elín á sínu sínu tólfta ári og hefur lengst enn frekar í ár, svo mikið að henni þykir nóg um blessaðri. Hún slagar hátt upp í bróður sinn og var um tíma á þessu ári álíka há og hann. Hún æfir fótbolta með Fjarðabyggð og fer á samæfingar á Reyðarfirði reglulega og æfir þess á milli fótbolta og er á þrek og styrktaæfingum hér heima líka. Í vor tók hún stigspróf á píanó og fékk nýjan kennara í haust sem nær vel til hennar og hvert lagið á fætur öðru hljómar hér í stofunni, mjög notalegt. Hún spilar á píanóið í kirkjunni á aðfangadagskvöld og jafnvel fær pabbinn að taka í bassann með henni.
Í sumar æfði hún frjálsar ásamt fótboltanum, fór í æfingabúir á Egilsstöðum í vor og keppti á Sumarhátíð ÚÍA og sínu fyrsta Landsmóti á Selfossi. Múttur tvær brunuðu svo með börn á æfingar á Fáskrúðsfjörð þar semvið höfum ekki aðstöðu til slíkrar iðkunar. Þegar hún er ekki í spriklinu dundar hún sér lon og don eða brasar með vinkonunum. Fléttar hár eftir kúnstarinnar reglum með aðstoð Youtube og föndrar og hannar. Töluvert listfengi þarna á ferð enda bíður hún spennt eftir saumavélinni sem hún fær frá ömmu sinni. Súper flott stelpa, heilsteypt og hugsandi og forréttindi að fá að leiðbeina henni út í lífið.
Frikki er og verður töffari fram í fingurgóma. Hann hefur stækkað umtalsvert á þessu ári og eins og gengur vaxa líkamshlutarnir mis hratt. Í fyrra voru keyptir skór í 39 en í haust var það komið í 44, reyndar voru þeir aðeins rúmir. Röddin brestur reglulega en hann hefur bara húmor fyrir því enda eru svo miklir húmoristar hér á bæ. Hluti af þessu skemmtilega tímabili er að kappinn pælir í ótrúlegustu hlutum og gaman að fylgjast með sjóndeildarhringnum stækka hjá honum. Þeir feður eiga stundum skemmtilegar rökræður þegar annar fullyrðir eitt og hinn sem hefur stærra innlegg í reynslubankanum gerir sitt besta til að útskýra fyrir unga besservissernum.
Hann stundar fótboltann líkt og systirin og hefur í tvígang æft með úrvalshópi fótboltakappa hér á Austurlandi í sínum flokki. Hann stundaði líka frjálsar í sumar, fór í sömu æfingabúðir og Dýrunn og keppti á sömu mótum. Hann stundar gítarnámið af kappi og hefur spilað víða á þessu ári m.a. á Nótunni á Akureyri ásamt þremur fræknum gítarleikurum. Sl. föstudag spilaði hann með félögum sínum á SamAust sem er keppni félagsmiðstöðva á Austurlandi. Flottur náungi en fyrirferð þessa umbrotaaldurs þykir sumum kennurum aðeins of mikil svo málin eru rædd reglulega og alltaf fyrirheit um bót og betrun, hún endist mis lengi.
Bæði léku þau lykilhlutverk í leikritinu á Árshátíð skólans sem hægt er að horfa á í heild sinni á www.stodvarfjordur.is Frikki er kóngurinn sjálfur og Dýrunn norn.
Jósef karlinn er stiginn á 45 aldursárið og venti sínu kvæði í kross á vormánuðum og skipti um vinnu. Kvaddi Eimskip og færði sig yfir til Tandrabergs á Eskifirði og er þar annar af tveimur verkstjórum. Þetta er ekki skrifstofuvinna og hann er töluvert á ferðinni út og suður og stjórnar löndunum og uppskipunum og alls konar verkefnum. Mesti munurinn sem við finnum og sjáum hér á heimilinu er að þegar hann á frí á hann frí og síminn er ekki logandi lon og don, þvílík dásemd. En vinnudagurinn er langur á köflum og það tekur stundum á hjá svona "gömlum" karli :) Hann syngur í kórnum og nú hefur körlunum fækkað svo hann fær stundum að syngja einsöng og klárar sig fínt við það. Hann stússast í ýmsu, er formaður Fræðslunefndarinnar í Fjarðabyggð og situr í stjórnum hér og þar. Hann lagði þjálfarastarfið á hilluna eftir vinnuskiptin því það samræmdist ekki vinnutímanum. Engin lognmolla hjá karli, frúin kvartar stundum undan því að lítið gerist í ýmsu viðhaldi heima við en kofinn er ekki hruninn enn :)
Frúin sem þetta ritar er alltaf jafn ung í anda og hefur ekki tekið neinar U beygjur í starfsvali enda ekki margt í boði. Kennslan í skólanum er aðal vinnan og svo kemur Herbinn og jógað sem eru sterkust í að hjálpa kerlu til að halda niðri gigtarskömminni og auka orku og styrk, góð blanda. Heitt jóga var nýtt á dagskránni í vor og svo aftur í haust en svo var aftur skipt yfir í gamla góða Hatha jógað. Hópurinn sami kjarni og alltaf, ótrúlega duglegar og þrautseigar konur og einn hugrakkur karl. Á þessum árstíma þegar kuldinn smýgur inn kroppinn þráir kerlan heitan pott á svalirnar en því miður er ekki komið að honum í framkvæmdaröðinni. Fjallgöngur sumarsins urðu nokkrar en samt færri en fyrirheit voru um. Þær voru færðar yfir á næsta ár. Steinboginn í Stöðvarfirði var þó á toppnum enda ægifagurt að líta í gegnum hann út fjörðinn og sjá hvernig hann rammar þorpið inn.
Við smelltum okkur þó af stað í brýnasta viðhaldsverkefni hússinns í vor, að skipta um glugga. Í fyrstu lotu var skipt um sjö glugga og á nýju ári verða nokkrir teknir til viðbótar. Við klárum svo hringinn vonandi árið 2014. Þá tekur eitthvað fleira við. En við finnum mikinn hitamun í þeim herbergjum sem eru núna hætt að kynda umhverfið í kringum húsið. Stór hluti ofna hússins var endurnýjaður og það er nýtt líf að skríða upp í rúm og það er notalegt og hlýtt í herberginu. Gömlu ofnarnir voru orðnir full dyntóttir og höfðu einhverja hentugleikastefnu að leiðarljósi sem enginn skildi.
Ferðalögin tengdust fyrst og fremst fótbolta og frjálsum íþróttum og enn sem fyrr höfum við gaman af þessu brölti. Við fjárfestum í fellihýsi í sumar, vel með förnu með góða sál. Svolítið þungt fyrir Súbba gamla að draga en við komumst allt það sem við ætluðum okkur. Við lentum í einni raun á Pæjumóti á Siglufirði þegar það skall á stormur fyrri nóttina og við hjónin rérum lífróður mest alla nóttina við að halda fortjaldinu á réttum stað. Frúin tilkynnti að herlegheitunum skyldi pakkað niður daginn eftir og við fengum gistingu hjá sýslumanninum sjálfum (sem er náfrænka frúar og barna).
Jobbi þurfti að vinna um verslunarmannahelgina og móðir og börn brunuðu á Unglingalandsmót á Selfoss með gamla Tjaldborgartjaldið í skottinu því kerlan treysti sér ekki með flykkið (fellihýsið). Það var ótrúlega notalegt þó það sé þolraun fyrir elsta tjaldbúann að sitja og liggja á jörðinni eftir að hafa setið í brekkum og hlaupið um keppnissvæðið allan daginn, skrá þennan þar, fylgjast með að þessi komi tímanlega í nafnakall, horfa á Dýrunni þarna og svo Frikka strax á öðrum stað, alltaf með hálfa búslóðina á bakinu og passa svo að allir hafi nóg að borða og séu örugglega búnir að pissa fyrir keppni. Hvað gerum við ekki fyrir börnin okkar, dásamlegt. Við vorum tengd í rafmagn og þegar nóttin var orðin köld var fírað upp. Krökkunum fannst þetta æði en skilgreiningar á fimm manna tjaldi 1975 voru aðrar en í dag.
Frúin skellti sér þó aðeins út fyrir landsteinana, gerðist fylgdarmaður móður sinnar og dvaldi í viku í Noregi hjá Sóla bró og fjölskyldu sem var staðsett þar. Það var mjög notaleg dvöl og við höfðum það aðallega kósí með prjónana og stukkum út á svalir þegar sólin lét sjá sig.
Í júní fengum við góða heimsókn þegar Halla, Árni og Helena Emma kíktu í heimsókn. Þau búa í Þýskalandi þar sem Árni spilar handbolta. Það var stutt en verulega ánægjuleg dvöl. Við hittum þau líka fyrir Norðan meðan þau voru í sumarfríinu. Litli gleðigjafinn heillaði að sjálfsögðu alla á heimilinu nú sem fyrr, nema kannski kisu sem lét lítið sér fara meðan sú stutta þeystist um. Þarna hitti hún kisuna Sjonna hjá Rósu frænku þegar við fengum okkur bæjarrölt.
Frikki er í ferðahóp og við foreldrarnir erum í lykilhlutverki í að hjálpa þeim með fjáröflun. Það gengur vel enn sem komið er og spennandi að sjá hvað sjóðurinn verður drjúgur eftir tæp tvö ár. Bakstur, sala á klósettpappír, lakkrís, þvottaefni, hálkubana og ýmsu öðru er bara mjög skemmtilegt verkefni og gengur vel því sveitungar okkar taka alltaf vel á móti ferðahóp.
Í nóvember flutti Solla gamla Sigurjóns á dvalarheimilið Uppsali á Fáskrúðsfirði. Hún þurfti á meiri umönnun að halda en er hress og ánægð með lífið í fallega rýminu sínu. Húsið hennar keypti Arnar, eitt baranabarnið og ljóst að það verður í góðum höndum.
Á þessum tíma er þakklæti alltaf ofarlega í huga undirritaðrar. Þegar litið er um öxl yfir árið er ég gífurlega þakklát fyrir það sem við höfum og það gefandi og viðburðaríka líf sem við höfum skapað okkur.
Í heildina hefur árið verið gleðiríkt og margt skemmtilegt brasað sem ekki er pláss að telja upp en sorgin sló okkur samt hressilega þegar litla dóttir Kára systursonar míns dó rétt áður en hún fæddist. Símtalið sem átti að vera gleðisímtal frá ömmunni setti tilveruna hjá fjölskyldunni á annan stað um stund. Þá sýnir sig hvað það er dýrmætt að eiga góða fjölskyldu sem hlúir hvert að öðru. Kári og Hugga ákváðu strax að komast sterk frá þessari raun ásamt börnunum sínum og eru okkur öllum frábær fyrirmynd.
Þau giftu sig í sumar í Austurríki og fyrir stuttu fengum við þær gleðifréttir að það sé annar gullmoli á leiðinni á nýju ári.
Í dag syngjum við hjónakornin á Aðventuhátíðinni í kirkjunni, Dýrunn syngur og leikur helgileik og fermingardrengurinn sjálfur tekur þátt í helgileik enda fullur af heilögum anda þessa dagana, eða þannig :)
Frikki fermist svo í Stöðvarfjarðarkirkju 28 mars næstkomandi, spurning hvort það verður ekki bara slegið í tónlistarveislu. Hver veit.
Megið þið öll eiga yndislega aðventu og gleðiríka jólahátíð.
Knús og kveðjur úr Hólalandi 18, þar sem alltaf er heitt á könnunni (engin loforð um bakkelsi nema menn hringi á undan sér).
Athugasemdir
Flottur pistill hjá þér gæskan og auðvitað kvittar maður fyrir og þakkar fyrir sig. :)
Kv, Sjonni.
Sjonni sæti í Sunnuhvoli. (IP-tala skráð) 18.12.2012 kl. 23:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.