Annir og uppeldi
Þriðjudagur, 30. október 2012
Eitt af því sem er ótrúlega mikilvægt fyrir foreldra er að kenna börnum sínum að þau þurfa oft að velja og hafna. Oft er tilhneigingin í þá átt að það eigi alltaf að taka þátt í öllu. Stundum stangast hlutir á og því fyrr sem börnum er kennt það því betra. Það er ekkert auðvelt að velja og hafna en það er hluti af lífinu.
Ég spái oft í það hvað krakkarnir mínir hafa úr miklu að moða. Þau hafa gaman af íþróttum og hafa tök á að sækja þær fjóra virka daga í viku án þess að það sligi pyngjuna. Þeim býðst að vera í félagsmiðstöð, við getum veitt þeim að vera í tónlistarnámi, þau taka þátt í kirkjustarfi, störfum fyrir Rauða krossinn, Friðrik í ferðahóp ofl. og það er alltaf eitthvað um að vera. Svo mikið að ef það á að skipuleggja eitthvað þá er einhver yfirleitt upptekinn þarna og þarna.
Og þá að uppeldinu. Það eru líka annir hjá foreldrum og ég var nú komin með hálfgert samviskubit sl. fimmtudag þegar við foreldrarnir vorum að fara út þriðja kvöldið í röð og börnin ein heima. Þetta raðaðist svona þessa vikuna. En þriðja kvöldinu var vel varið. Við fórum á fyrirlestur hjá Húgó á Reyðarfirði og hann sagði okkur að "Uppeldi virkar". Ég sem er svo áhugasöm um allt á þessu sviði og sífellt að vinna í því að gera mig betri og betri á uppeldis og samskiptasviðinu fékk stóra vítamínsprautu þarna.
Daginn eftir fékk ég að fara í vinnuna (þurfti ekki) og ég fékk að kenna þessum dásamlegu börnum (þurfti ekki) heimilisfræði. Þau voru svo heppin að fá að gera grænmetisrétt og núðlurétt (þurftu ekki).
Breytingarnar snúa oftar en ekki að breytingum á því hvernig við segjum hlutina, að við segjum líka það sem við meinum og ætlumst ekki til að aðrir viti alltaf hvað við meinum.
Um daginn sagði Friðrik við mig "Af hverju tökum við ekki að okkur fósturbarn"? "AF hverju ertu að spá í það" svaraði ég. "Nú, þú ert svo góð í uppeldinu". Vá er þetta ekki ótrúlega flott hrós og það frá 13 ára unglingnum. Er á meðan er, kannski kemur annað hljóð í strokkinn á næsta ári ............. eða ekki. Ég er í það minnsta mjög montin og ætla að vera það áfram.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.