Hreyfing
Mánudagur, 15. október 2012
Mér hefur alltaf þótt það merkilega þegar fólk tengir hreyfingu bara við það að grennast og tekur reglulega skurk í ræktinni í því skyni að missa nokkur kíló.
Ég er voða fegin að hafa verið á hinum endanum í gegnum tíðina og hreyft mig mér til ánægu.
Ég missti einbeitingu um tíma og var ekki í mikilli né kröftugri hreyfingu þegar ég glímdi sem mest við þyngdarpúkann en þá var orkan líka svo lág að úthaldið í hreyfingu var lítið. Hélst í hendur við ruslið sem ég lét ofan í mig. Þegar ég tók á mataræðinu sem er jú lykillinn í því að halda þyngdinni á réttu róli og fékk meiri orku þá naut ég þess enn meira að hreyfa mig.
Mér er enn minnisstætt þegar ég var að glíma við að koma mér af stað. Þá komst ég ekki í gegnum heilan jógatíma af diski (sem er by the way mjög rólegur) og var alveg að drulla á mig. En smátt og smátt jókst styrkurinn og ég fór að njóta jógans í botn.
Það sem er svo skemmtilegt við jógað er að yfirleitt heldur fólk sér sem stundar það sér á réttu róli þyngdarlega. Það sé ég svo vel á kerlunum sem hafa fylgt mér í jóganu frá upphafi og stunda það reglulega. Konur sem komnar eru af léttasta skeiði en halda sér svo fínum. Þær eru auðvitað margar í annarri hreyfingu og frábært að hafa hana sem fjölbreyttasta.
Jógað gefur nefnilega líka svo fallega mótun og mér finnst jógafólkið alltaf í flottasta forminu - eðlilegt og með góðan grunnstyrk, ber sig vel og geislar.
Um það leyti sem ég byrjaði að kenna jóga kom prófaði kona tíma hjá mér. Þetta reyndist henni töluvert erfitt en hún kom aldrei aftur því hún sá það nú strax að hún myndi aldrei grennast á því að vera í jóga. Í jóga þurfum við rosalega að takast á við okkur sjálf og það höndla það ekki allir.
Í mínum huga er hreyfingin svo mikið sálarmeðal og fyrir gigtarskrokkinn minn besta verkjalyfið ever. Líðanin í sálinni og skrokknum helst jú í hendur og fátt betra en hressandi göngutúr til að hreinsa út angur í kollinum.
Þetta var hugleiðing dagsins, bleik í tilefni af bleikum október, með fyrirheitum um fleiri hugleiðingar síðar.
Yfir og út.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.