Áframhaldandi tilraunir
Sunnudagur, 29. júlí 2012
Allt er vænt sem vel er grænt. Áfram halda tilraunir hér í landinu hóla.
Ég fór á Franska daga í gær sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi og sá þar krem gert úr morgunfrú og blágresi, grunnurinn var kókosolía. Í morgun skellti ég kókosolíu í pott, stal mér þremur morgunfrúm frá Fjarðabyggð (segið engum frá) og náði mér í blágresi og smá blóðberg. Sauð svo saman og ég náði í tvær 50ml krukkur. Ægilega spennandi og næstu daga smyr ég á mig yngjandi kremi því blágresið á víst að vera svo gasalega gott fyrir húðina og morgunfrúin líka.
Ég bíð núna spennt eftir jojoba olíunni, rósavatni og shea smjörinu úr jurtaapótekinu. Þá verður sullumallað.
Líklega fer ég að bera afurðirnar í vini og vandamenn ef ég hef ekki undan við að smyrja á mig.
Svo er ég að leggja grunn að magnaðri gigtarolíu til að nudda mína stirðu vöðva í vetur og til að setja í baðið. Engifer kominn í olíu og hitt verður sett í krukkur um leið og ég hef viðað að mér réttu hráefni. Hvar skyldi ég finna eini.... hm....Svo spennandi.
Baðsaldið ilmar í krukkunni af lavender og vanillu og spurning hvort ég skelli mér ekki bara í bað í kvöld.
Spurning hvort það sé ekki sniðugt að leita uppi eitthvað námskeið svona til að vita eitthvað um hvernig á að gera svona gúmmulaði. Annars er googlið og youtube ótrúlega drjúgur viskubrunnur.
Blómakveðjur SF
Athugasemdir
Hæ frænka.
Einir finnur þú í Snæhvammslandi nóg af honum þar
Herborg (IP-tala skráð) 30.7.2012 kl. 13:48
Takk Herborg. Èg fann hann í garðinum hjá Àslaugu.
Solla (IP-tala skráð) 7.8.2012 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.