Komnar heim
Miðvikudagur, 13. júní 2012
Þá erum við kerlurnar komnar heilar heim. Allt gekk smurt þó við værum örlítið þreyttar þegar við komum í náttstað eftir heimflugið enda var klukkan þá orðin hálf þrjú að norskum tíma. Við pöntuðum hjólastól á flugvellinum og ég trillaði mömmu hratt og örugglega eftir göngunum. Hún kvartaði nú ekki undan bílveiki en fannst þetta bara ósköp notalegt. Svo fengum við forgang út í vél og það er ekki slæmt að vera í forgangi.
Síðasta daginn notaði ég til að útrétta örlítið. Við Sóli fórum fyrst í göngutúr í kringum vatn og þar liggur gífurlega falleg gönguleið. Noregur er fallegur með öllum sínum gróðri og kyrrðin var ólýsanleg. Útréttingarnar gengu hratt og örugglega fyrir sig enda er ég ekki mikil mollmanneskja og þeirri stund fegnust þegar ég kemst út úr þannig húsakynnum. Þegar maður veit hverju leitað er eftir gengur þetta líka yfirleitt smurt.
Sólin sýndi sig svolítið og það var mjög notalegt að sitja á svölunum og njóta veðursins. Það er eitt af því sem ég elska við að vera í örlítið hlýrra loftslagi en hér á Fróni, að sitja úti og lesa eða glenna mig framan í sólina (innan siðsemismarka að sjálfsögðu).
Ég fór svo í hjólatúrinn langþráða með Sóla og Petreu og nú gekk betur hjá kerlu að koma sér af stað. Það gekk nú ekki alltaf þrautalaust og í tvígang var hjólinu hent á miðri götu. Þegar ég benti henni á að þá kæmu bara bílarnir og keyrðu yfir það tók hún það aftur. Hún var orðin þreytt undir það síðasta og þá bilar stundum samhæfingin. Hún endaði líka úti í einum runna og við Sóli máttum hafa okkur öll við að missa okkur ekki í hláturskast því það var ólýsanlega fyndið. Henni sjálfri fannst þetta bara skondið því hún meiddi sig ekki neitt.
Mamma var mjög ánægð með ferðina og þakklát fyrir að hafa komist þessa ferð og að ég skyldi nenna að leggja þetta á mig. Þetta var gefandi fyrir okkur öll og við vitum ekki hve lengi hún fær að vera með okkur og elli kerla er að herja hratt á hana þessa dagana. Það þarf ekki að flandrast út um allt og í okkar tilfelli var það samveran sem var aðal atriðið. Við Sóli náðum að ræða um heima og geima eins og okkur er lagið og náðum að bæta upp langa fjarveru. Þráðurinn milli okkar er sterkur þó við heyrumst stundum ekki svo vikum skipti. Það er ekki alltaf magnið heldur gæðin.
Ég á eftir að heimsækja Noreg aftur. Mér líður vel á þessum slóðum, kannski var ég þar í fyrra lífi en kannski eru það norrænu taugarnar sem hafa þessi áhrif og líkindin með okkur þó trén séu hærri. Ég hef samt ekki hugsað mér að leggjast í víking að svo stöddu þó ég væri svo til í að prófa að búa einhvern tíma í landi sem er örlítið hlýrra fyrir kroppinn minn.
Nú tekur við að koma heimilinu í sæmilegt horf. Einhvers staðar hefur mér mistekist í uppeldishlutverkinu á maka og börnum. Húsmóðurstörfin í Jessheim voru pís of kake miðað við það sem bíður mín hér. En mér leiðist ekki á meðan.
Yfir og út
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.