Verslunarferð erlendis.

Já það er flott að vera í útlöndum og skella sér í verslunarferð til útlanda. Við smelltum okkur yfir til Svíþjóðar í gær ásamt öllum hinum Norðmönnunum og kíktum í moll. Þó landslagið hafi mest einkennst af túnum og trjám var það fagurt engu að síður. Á þessar slóðir sækja Norðmenn mikið því þar er miklu ódýrara að versla heldur en í Noregi, bæði fatnað og matvöru.

Þar sem mamma er nú ekki hraðskreið fengum við ótrúlega góðan fararskjóta, voldugan hjólastól með góðri verslunarkörfu sem ég gat geymt dótið mitt í.  Hún hafði hug á að versla sér buxur og golftreyju og það gerðum við í fyrstu búðinni sem við fundum.  Ég var ekkert í neinum fatahugleiðingum fyrir mig enda verð ég óttalega heilalaus í svona mannmergð og stórum búðum.  Ég fann sitthvað handa krökkunum en þótti úrvalið í Dressmann frekar dapurt og á því eftir að finna eitthvað á bóndann.  Við fórum í alveg ljómandi fína skóbúð og þar tókst mér að finna fimm pör af skóm á korteri, ég hefði svo getað bætt einu við og fengið frítt og Sóli nýtti sér það með skóm handa Petreu. Fyrir herlegheitin greiddi ég sem svarar 13 þús ísl krónur, það slagar rétt upp í par heima.  Mamma fann sér svo ljómandi fína inniskó.

Ég skellti mér í langþráðan göngutúr með Sóla og Petreu. Hún þeystist um á hjólinu sínu og í þessari ferð náði hún þeim merka áfanga að komast sjálf af stað þar sem smá hallaði undan fæti.

Í dag eru engin stór plön nema kannski hjólaferð með Sóla og Petreu. Við sváfum vel og lengi og njótum þess enn og aftur að vera í rólegheitum. Mamma les og leggur sig þess á milli og hefur það notalegt.  Kannski skreppum við eitthvað aðeins á rúntinn.

Veðrið var frekar þungbúið í gær og rigning með köflum. Við komumst þó þurr úr göngunni. Það er þungbúið í dag og ekki gott að vita hvort hann skvettir úr sér eitthvað.

Síðasti dagurinn er svo á morgun og annað kvöld liggur leiðin aftur heim á Frón þar sem annir hversdagsins taka við strax á þriðjudag, engin miskunn.

 Yfir og út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband