Skvísurnar í Norge
Fimmtudagur, 7. júní 2012
Þá höfum við mæðgur dvalið í Noregi síðan seint á mánudagskvöld. Allt ferðalagið gekk eins og smurt. Við flugum suður að kvöldi sunnudags, gistum á Lambastaðabrautinni og flugum svo út seinnipart mánudags. Heimsóttum Jón og Laufeyju og Siggu frænku áður en við yfirgáfum landið.
Flugið var ljómandi fínt í alla staði og vélin hreyfðist ekki neitt. Ég var farin að hlakka til að horfa á einhverja þætti í vélinni því vélarnar hjá Icelandair eru svo flottar og fínar. Nei þá fengum við óbreytta vél eins og þeir kölluðu og enginn skjár í sætinu, bara í loftinu og þar var sýnd bíómynd sem ég sá í einhverju flugi. En það skemmdi nú ekki ferðafílinginn og við fengum snakk í sárabætur, örlítinn poka.
Sóli tók á móti okkur á forláta Benz sem hann fékk lánaðan hjá vini sínum. Þau eru á milli bíla eins og stendur og þá er gott að eiga góða að.
Hafdís beið okkar með velgjörðir, dásemdar köku sem hún hafði galdrað fram af sinni alkunnu snilld. Petrea faðmaði okkur vel og innilega og sýndi ömmu sinni sykurkarið sem þær höfðu útbúið sérstaklega fyrir ömmu.
Á þriðjudag fengum við mamma snyrtingu hjá Hafdísi og þau kíktu með okkur í moll seinnipartinn. Það var stutt stopp en mér tókst þó að finna eina blússu sem kostaði ekki augun úr. Einhvern veginn laðast ég alltaf að fatarekkunum. Hafdís var að búa sit til brottfarar til Íslands og fór í gærmorgun. Henni bauðst hálfs mánaðar vinna á snyrtistofu í Keflavík og gat ekki neitað því. Við snæddum svo dásemdar grillmáltíð um kvöldið.
Við mútta höfum því verið í rólegheitum yfir daginn sl tvo daga. Ég þurfti að læra leiðina í skólann hennar Petreu og sótti hana í skólann seinnipartinn og Sóla svo í vinnuna stuttu síðar. Við komum við í búð á leiðinni frá skólanum hennar Petreu og ég keypti þá allra dýrustu banana sem ég hef á ævinni keypt. Mér tókst líka að keyra niður göngustíg þegar ég beygði í átt að búðinni, þeir eru svo breiðir og mér fannst þetta vera afrein, ég lenti ekki í neinu brasi og fannst þetta aðallega fyndið og kjánalegt.
Ég hef ekkert skoðað umhverfið enda er þetta ferðin hennar mömmu og við erum í rólegheitum hér heima yfir daginn, lesum, prjónum og hlustum á Rás 1 í gegnum netið. Ég geri mínar jógaæfingar á dýnunni hennar Hafdísar og skrepp út á svalir þegar sólin sýnir sig. Það er aðeins of mikil forsjárhyggja í skýjunum að mínu mati en við brennum ekki á meðan.
Ég hef hug á að fá mér hjólatúr í kvöld hér í kring og sjá aðeins hvað þetta svæði hefur upp á að bjóða og fá smá hreyfingu líka. Við förum í sumarveislu í skólann hennar Petreu seinnipartinn og þar verður eflaust mikið fjör.
Segi þetta gott í bili og læt sjá mig hér áður en dvölinni lýkur. Ég held ég nái smá sólarglætu.
Yfir og út, Solla í Norge.
Athugasemdir
Gaman að frétta frá ykkur skvísunum, njótið vel áfram
Áslaug (IP-tala skráð) 8.6.2012 kl. 16:17
Gaman að fá svona fréttabréf. Njótið dvalarinnar :)
Sigurjón Snær Friðriksson (IP-tala skráð) 9.6.2012 kl. 21:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.