Að bjarga verðmætum !
Föstudagur, 1. júní 2012
Í síðustu viku uppgötvaðist leki í kjallaranum sem farinn var að skemma góflið í holinu. Allt í góðu með það fyrir utan ónýtt gólf og eitthvað sem tryggingar bæta ekki nema þarna var slatti af bókakössum sem alltaf átti eftir að koma í hillur eftir flutningana okkar frá Leynimel fyrir sex árum.
Eins og gefur að skilja fór ýmislegt í ruslið því vatn og bækur eiga ekki góða samleið. Samt hittist svo á að þetta voru aðallega Liverpool blöð (sem aldrei má henda) og einhverjir reyfarar sem enginn hér á bæ á eftir að lesa held ég. Mér tókst með naumindum að bjarga tveimur eintökum af Flambarðssetrinu, bækur sem mér er mjög annt um. Þær þurfa samt smá aðstoð frá Maju í Rjóðri því það varð á þeim smá skaði. En vænst þótti mér um að bjarga sögubókinni hans Friðriks sem hann skrifaði þegar hann var í öðrum eða þriðja bekk. Hún var gegnsósa en ekki byrjuð að mygla. Við náðum blaðsíðunum í sundur og gátum þurrkað. Svo verður hún plöstuð blaðsíðu fyrir blaðsíðu til að gera hana varanlega og svo við finnum ekki fúkkalyktina af henni.
Þetta eru dásamelgar sögur eins og gefur að skilja þegar maður er sjö eða átta ára og hér koma nokkur sýnishorn. Ég leyfi mér að setja punkta eða kommur en stafsetning heldur sér.
- Eynu sinni voru ridarar sem hétu Rafael, Jaiko, Rascukus og Dannu. Þeir fóru í lítið virki sem var vondur ridari. Síðan Fór Jaiko og ætlað að drepa hann. Síðan kom Rasckus. Síðan kom Rafael og henti steini.
- Einu sinni var kóngur. Hann var góður við allt fólkið. Síðan komu riddarar úr sporðdrekaliðinu sem vildi berjast. Kóngurinn góði hann reyndi með öllum kröftunum sínum að reyna að sigra. En síðan tók vonda liðið sigurinn.
- Eynu sinni var konungsríki sem var langt í burtu. Þar bjó fallegasta prinsessan í öllum heiminum. Síðan þegar hún fór að sofa kom dauðinn og skrímslið. Svo bættist í hópinn beinagrind og vitsuga. Kóngurinn kallaði á alla riddarana sína og þeir fóru að berjast. Síðan tók kóngurinn sigurinn.
- Einu sinni ætlaði ég að leika við Villa og Hlyn. Ég flýtti mér of mikið og bíllinn keyrði á löppina á mér. Síðan þurfti ég að fara til Eskifjarðar. Úff. Þarna fylgdi ekki sögunni að það var ég sem keyrði yfir fótinn á honum, hann fór út áður en bíllinn stöðvaði, rann undir bílinn og ég keyrði yfir ristina á honum. Já, og fæ enn samviskubit en hann lærði dýrmæta lexíu og varð ekki meint af, ótrúlegt en satt. Snjórinn mjúkur undir og hann í vel fóðruðum stigvélum og ullarsokkum.
Athugasemdir
Gaman að þessu og alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt. Já þessar sögur sem börnin skrifa eru algerir gimsteinar og gott er að þessi bók bjargaðist.
Sigurjón Snær Friðriksson (IP-tala skráð) 1.6.2012 kl. 12:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.