Að syngja í tómri tunnu !

Þannig leið mér á vortónleikunum okkar í fyrradag. Það réðst á mig eitthvað vorkvef sem tók búsetu ofarlega í höfðinu á mér og þegar ég söng fannst mér ég vera innan í tómri tunnu.

Tónleikarnir þóttu samt takast vel svo ég hef ekki strumpað mikið falskt.

Það er alltaf leiðinlegt að vera ekki í standi í svona skemmtilegheitum. Ekki vildi ég samt vera heima, ónei meðan ég væri uppistandandi skyldi ég syngja, þó ég svitnaði og kólnaði á víxl.

Kórinn átti svo notalega stund á Kaffi Steini þar sem við snæddum dýrindis kvöldverð.

Daginn eftir steig ég varla upp úr rúmi nema staulast á stað sem ég gæti lagt mig á. Já ég var lasin og það gerist sem betur fer afar sjaldan hjá kerlunni. Það er nóg að vera í vinnu við að halda dampi með blessuðu vefjagigtina sér við hlið. Ég lá eins og skatan og beið meðan tíminn leið. Hafði ekki heilsu til að lesa og nennti ekki að horfa á sjónvarpið, gat ekki einu sinni sofið. Eftir kvöldmat gat ég þó setið upprétt í sófanum og horft á imbann með fjölskylunni.

Ég er öllu skárri í dag og get verið lengur í uppréttri stöðu en í gær. Ég gat meira að segja moppað svolítið ryk af stofu og eldhúsgólfi og naut dyggrar aðstoðar unganna minna við hin þrifin. Geri fastlega ráð fyrir að morgundagurinn verði alveg glimrandi.

Ég tek svo við orðunni "starfsmaður mánaðarins" á kennarastofunni á mánudag. Þann titil fá þeir sem verða lasnir í frítíma sínum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband