Fótboltamamma
Sunnudagur, 29. apríl 2012
Dagurinn í gær var skemmtilega fjölbreyttur. Ég byrjaði daginn á að kynda jógaherbergið niðri á Steðja og svo mættu kerlurnar rétt fyrir hálf ellefu og við styrktum, teygðum og togðum og svitnuðum þokkalega í þessar 70 mínútur sem tíminn stóð.
Þá tók við sprettur heim, aðeins að svitna meira, í sturtu og í svörtu fötin og klukkan hálf eitt var ég mætt á æfingu fyrir jarðarför sem var þá um daginn. Enn einn samferðamaðurinn, Guðbjörn frá Vík sem kallaður var burtu allt of snemma. Athöfnin var falleg að venju og söngurinn lukkaðist nokkuð vel þó við séum alltaf öruggari með okkar eigin kórstjóra.
Síðan lá leiðin heim og enn var skipt um föt og nú farið í fótboltamömmufötin. Frikki karlinn var að keppa á Fjarðaálsmótinu á Reyðarfirði og það var komið að okkur Stödda mömmunum að standa okkar vakt. Ég náði síðustu fimm mínútum leiksins og þá var Frikki farinn út af sökum smávægilegra meiðsla.
Frá tæplega fimm til að verða níu dunduðum við okkur í eldhúsinu í Grunnskólanum á Reyðarfirði. Stöddamömmurnar, ég, Gurra og Guðný í Lyngholti elduðum og framreiddum mat fyrir 80 fótboltastráka og þeirra fylgdarlið. Það gekk eins og smurt og þetta var rosalega gaman.
Ég er örlítið meira lurkum lamin í dag en aðra daga en gigtin mín hefur verið í stuði síðustu daga blessunin en það er einn og hálfur tími í næstu lotu. Sjoppuvakt frá tólf til tvö og svo að aðstoða við grillið og ganga frá í skólanu.
Þetta er hluti af því að vera fótboltamamma. Fótboltapabbinn á heimilinu hefur haft veg og vanda að skipulagningu foreldravakta, verslað inn og sollis. Ég sendi honum sms í morgun og spurði hvort hann hefði sofið hjá mér í nótt því þegar ég fór að sofa var hann ókominn og þegar ég vaknaði var hann farinn. Jú mikið rétt, það var hann sem hafði bælt rúmfötin.
Það er frábært að vera þátttakandi og fylgja krökkunum í sem flestar fótboltaferðir og að sjálfsögðu á mótin. Að sitja í kulda og trekki umvafinn teppi og hlýtum fötum með kakó í bolla í félagsskap annarra frábærra fótboltaforeldra er ótrúlega skemmtilegt.
Um næstu helgi keppir Dýrunn á sama móti og ég aðstoða eitthvað þar þó ég taki eitt skrepp til Rvk. og svo liggur brátt fyrir dagskrá sumarsins og í kringum hana er pússlað. Ég veit að árin sem fótboltamamma eru ekki mjög mörg og líða hratt svo það er um að gera að njóta í botn. Svo ég tali ekki um forvarnargildið. Það er efni í annan pistil.
Njótið ykkar í botn !
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.