Góðar minningar !
Fimmtudagur, 23. febrúar 2012
Þó ég velji það að lifa í núinu og vinni í því statt og stöðugt að láta ekki fortíðardrauga draga mig niður, hvað þá áhyggjur af því sem ekki er komið þá þykir mér ljúft á stundum að ylja mér við góðar minningar.
Ein af þeim er Noregsferðin sem ég fór með mömmu, pabba, Sóla, Áslaugu og góðu vinafólki þegar ég var sex ára.
Siglingin með gamla Smyrli var þvílíkt ævintýri. Mér þótti lítið til Færeyja koma enda var þar þokusuddi og rigning auk þess sem máfsskratta tókst næstum því að skíta á hausinn á mér. Það þótti mér mjög móðgandi.
Aksturinn um Noreg í hitanum, syngjandi Mannakorn í aftursætinu, að busla í stöðuvötnum og sjó, snæða nesti utan í vegkanti og drekka Sóló, tína jarðarber á jarðarberjaakri, klappa froski og leika við Trixí labrador hjá fólki þar sem við tjölduðum, sjá konungshöllina í Osló, fara upp í Hollmenkollen, upp á Flöjen (vantar rétta ö-ið) í Bergen, sjá tröll Norðmanna, keyra í gegnum jarðgöng, upplifa ótrúlegustu rigningu og hita og sól sem ég hafði aldrei upplifað áður.
Ég var bara sex ára og auðvitað eru minningarnar mikið tengdar þeim myndum sem voru teknar. Þetta eru skamt skýrar minningar og einar af þeim allra bestu í bankanum mínum.
Ég man líka ýmislegt sem ekki var fest á filmu eins og hvað leðursætin í Peugot-inum okkar voru brennandi heit, smá árekstra á milli okkar Sólmundar þar sem ég fékk skammir fyrir og hvað mér þótti ógeðfellt að pissa í klósettið í sumarbústaðnum á fjallinu með engu vatni en sagi í staðinn. Merkilegt þótti mér þegar íslenski fáninn var dreginn að hún í bústaðnum á fjallinu og blakti meðan við dvöldum þar o.s.frv. Ég missti næstum augun á einu tjaldstæðinu þegar rauðhærð kona kom inn á klósettið í baðslopp, smellti sér svo úr honum, stóð kviknakin fyrir framan spegilinn og þvoði sér. Þetta hafði ég aldrei séð áður og fór alveg í flækju.
Ég man líka hvað ég hlakkaði til að koma heim og fara að hjóla. Ég var nýbúin að læra að hjóla þegar við fórum út og þörfin orðin mikil eftir þriggja vikna pásu.
Sigurjón og Stína sitja nú við að skanna inn slidesmyndir frá mömmu og pabba og kann ég þeim miklar þakkir fyrir það.
Þessi hér sem ég hafði ekki séð í meira en áratug kveikti á miklu úr minningabankanum. Ég man svo vel hvað steinarnir voru heitir og við vorum gjörsamlega að bráðna úr hita.
Góður ylur af þessari minningu og mikið er ég lánsöm og þakklát að góðu minningarnar úr minni æsku eru langt um fleiri en þær erfiðu. Það eru ekki allir svo heppnir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.