Jólakveðjan árið 2011

Ritað í Jóla(Hóla)landi 18 um miðja aðventu 2011

 

Þegar aðventan er rúmlega hálfnuð sér húsfreyjan í Hólalandinu að ekki verði lengur beðið með að koma jólapistlinum á prent svo hann berist til flestra áður en jólin verða liðin. Árið 2011 hefur leikið okkur blíðum höndum og engar stórfenglegar breytingar orðið á okkar högum.

Börnin stækka eins og þeim sé borgað fyrir það og miðað við hraðann eru þau á góðu tímakaupi. Dýrunn er orðin svotil jafn há Friðrik þó eitt og hálft ár skilji á milli og hann réttlætir það með því að „stelpur byrji oft á undan strákum að stækka“.

Mjög margt hefur á daga okkar drifið og nokkuð ljóst að það er sjaldan lognmolla á okkar vígstöðvum og alltaf eitthvað framundan. Börnin stunda námið sitt vel og standa vel á þeim vígstöðvum. Þau stunda sitt hljóðfæranám, Dýrunn á píanó og Friðrik á gítar (grípur í bassa ef á þarf að halda í skólahljómsveitum). Í þessum töluðu orðum eru bara tveir tímar í jólatónleika tónlistarskólans og þar spreytir Friðrik sig í sjö tónlistaratriðum, einn og með hljómsveitum (gítar, bassi + söngur). Dýrunn spilar þrjú lög og hefur æft mikið síðustu daga. Hún komst nefnilega að því að tónlistarnámið er skemmtilegra ef maður æfir sig reglulega.

Um tíma var þetta nefnilega svolítið stríð. Í fyrra var sagt frá fótboltaiðkun Friðriks og hún er enn á sínum stað. Hann er núna kominn í fjórða flokk og gengur vel. Dýrunn ákvað í upphafi árs að prófa að fara á fótboltaæfingar og líkar vel. Þar sem sameiginlegar æfingar fara fram á Reyðarfirði var sett inn aukaferð með skvísurnar því fleiri tóku þessa ákvörðun. Nú þegar þannig gerist þá bætast fleiri mót við svo sumarið helgaðist örlítið af fótbolta. Það var bara ljómandi gaman og algjör einhugur beggja foreldra að fylgja þeim sem frekast er unnt. Friðrik er reyndar orðinn svo stór að næsta sumar fer hann einn með hópnum þvert og endilangt. Fótboltaiðkun Dýrunnar hefur verið ágætis ákveðniþjálfun fyrir hana.

Í byrjun júní fengum við okkur góðan rúnt, fyrst til Reykjavíkur (já já, við komum ekki í heimsókn), gistum tvær nætur og héldum svo vestur til Þingeyrar. Þar fór fram ferming Agnesar hans Sóla bróður og dvöldum við í litlum bústað með Sóla og fjölskyldu og mömmu. Þetta var mjög ljúft. Þaðan var brunað til Akureyrar og 17. júní fagnað í 4°C áður en heim var haldið.

Það var meira á döfinni en fótbolti. Friðrik og Dýrunn kepptu á Sumarhátíð ÚÍA og það var mjög skemmtilegt að vanda. Þar kviknaði enn meiri áhugi Friðriks á frjálsum svo hann keppti líka á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Það var ekki síður skemmtilegt og allir sammála um að stefna á Selfoss að ári og þá verður Dýrunn orðin nógu gömul til að keppa líka.

Jobbi karlinn skellti sér á þjálfaranámskeið snemma á árinu og tók hluta nr. tvö núna um daginn. Hann sótti síðan um að fá að þjálfa flokkinn hennar Dýrunnar á Rfj. og fékk það. Hann er hvort sem er bundinn yfir honum og býður sig yfirleitt fram sem liðsstjóra. Þjálfunin gengur bara vel og dóttirin nokkuð sátt við pápa sinn. Hann er enn hjá Eimskip og situr svo í hinum ýmsum nefndum og ráðum út og suður. Kannski þykir honum svona leiðinlegt heima hjá sér 

Frúin útskrifaðist sem fullgildur kennari á grunn og framhaldsskólastigi á vordögum og nú er sko annar bragur á kennslunni hjá kerlu. Hún situr áfram í Barnavernd Fjarðabyggðar og í stjórn Krabbameinsfélags Austfjarða. Jógað er á sínum stað 2x í viku. Aðeins hefur hún verið rólegri að þeysast varðandi Herbalife árinu en heldur ákveðnum grunn og er dyggur neytandi ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum.

Kisan Sóla er komin á níunda ár og verður heimakærari með aldrinum. Hún er spræk og ótrúlegur leikur í henni þrátt fyrir háan aldur.

Við syngjum enn í kirkjukórnum og nú um jól og aðventu er meira um að vera og það er bara skemmtilegt .

EN hæst ber að nefna í fréttum að um mitt sumar fengum við hjónakornin nýtt hlutverk  þegar Halla og Árni eignuðust sitt fyrsta barn. Jobbi afi var við það að springa úr monti þegar sú stutta kom í heiminn og ekki dónalegt að vera komin með nýjan titil Jobbi afi og Solla amma. Við brunuðum Norður og voru viðstödd skírnina þar sem hún fékk sitt fallega nafn Helena Emma.

Hún ber að sjálfsögðu af öðrum börnum hvað fegurð og annað atgervi varðar og ég held að hún verði óvenju skýr enda hefur hún ekki langt að sækja það.

Litla fjölskyldan býr í Þýskalandi og í september lögðum við land undir fót og heimsóttum þau. Það var mjög ljúft og dásamlegt að komast í hlýjuna eftir kuldann hér heima. Afinn og amman skelltu sér svo í smá upplyftingu í Barcelona meðan börnin dvöldu hjá Höllu og co. og í Barcelona hlóðum við Herbalife batteríin á skemmtilegri ráðstefnu. Það var hlýtt í Þýskalandi en við byrjuðum fyrst að svitna í Barcelona.

Þá hefur verið stiklað á mjög stóru yfir afrek ársins og heilmiklu sleppt úr samt.

 Megið þið öll eiga yndisleg jól og njóta gæfu og velgengni á nýju ári. Knús á línuna >>>>>>>>> Solla, Jósef, Friðrik og Dýrunn

IMG_3745IMG_1775

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband