Helgardvöl á Eiðum

Síðustu helgi var ég svo heppin að vera þátttakandi í helgardvöl á sem Krabbameinsfélag Austfjarða og Austurlands halda árlega.

Ég hef aðeins verið viðloðandi þessar helgar, var með jógafræðslu fyrir ca fjórum árum, dvaldi með þeim einn laugardag í fyrra og fór í jóga og svo var planið að vera núna alla helgina.

Plönin breyttust aðeins og ég skrapp heim á laugardag til að kveðja góðan kappa hann Kjartan Guðjóns.

En upphaflega mætti ég upp úr tvö á föstudegi og hjálpaði til við undirbúning, það þurfti að setja utan á rúm og græja ýmislegt.

Gestir byrjuðu að koma um fimmleytið. Alls voru skráðir ellefu gestir, bæði fólk sem hefur greinst með krabbamein einhvern tíman, eru að glíma við það núna, makar eða vinir. Allir með ótrúlegan reynslubanka og hafa margt að gefa. Tvær stelpur að sunnan misstu af fluginu og komust með herkjum með næstu vél eftir alls kyns krókaleiðum. Það var mikið búið að hlæja að því yfir helgina og grínast með þessa ævintýraferð.

Rúmlega sex mætti enginn annar en KK á svæðið og spilaði nokkur góð lög og sagði sögur á milli af sinni alkunnu snilld. Hann var á leið í Loðmundarfjörð að spila og þáði boð okkar um að koma og vildi ekki fá neitt fyrir og var eiginlega meira þakklátur yfir að hafa verið beðinn um að koma.

Um kvöldið snæddum við gómsætan fisk og í elhúsinu var öflug eldabuska úr Borgarfirði Eystri.

Síðar um kvöldið var Tinna Hrönn iðjuþjálfi  með fræðslu og fór með okkur í skemmtilega hópstyrkingaleiki. Í lok kvölds var kyrrðarstund sem Hólmgrímur prestur leiddi. Svo tók spjall við í drjúga stund. 

Á laugardag renndi ég af stað heim eftir morgunverð og mætti aftur rétt fyrir kvöldverð. Þann dag var fyrirlestur um hamingjuna sem ég missti af og var víst mjög magnaður. 

Um kvöldið stigum við dans undir leiðsögn Pálínu Margeirsdóttur og það var mjög skemmtilegt og mikið hlegið. Svo spjölluðum við langt fram eftir kvöldið og mikið var hlegið og grínast.

Klukkutíma eftir morgunverð á sunnudag var ég með jógastund, stólajóga eins og ég kalla það þar sem getan til að hreyfa sig er misjöfn og fólk á misjöfnum aldri. Síðan snæddum við enn eina ferðina.

Margt annað var brallað um helgina, farið út á Eiðavatn á báti að degi til og í stjörnubjörtu kvöldinu, gengið um nágrennið og fólk deildi reynslu sín á milli. Einnig var boðið upp á svæðanudd.

 Herlegheitin alla helgina kostuðu 2500 á mann, matur var gefinn víða að, öll vinnan okkar án endurgjalds og restina styrktu krabbameinsfélögin. Eftir hvíldarstund og samantekt fórum við í kirkjuna og fengum privat messu. Það var mjög notaleg stund. Síðan héldu allir til síns heima, með gleði og þakklæti í hjarta eftir yndislega samveru.

 Að umgangast fólk sem tekist hefur á við það stóra verkefni að glíma við krabbamein er  mjög holl og kemur manni niður á jörðina og minnir á hvað maður getur verið þakklátur fyrir að vera ekki að glíma við þennan gest. Og hvað maður hefur það gott. Ég stefni svo sannarlega á að mæta aftur að ári og vona að við sjáum enn fleira fólk taka þátt í þessu flotta verkefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband