Trukkurinn og æðruleysið ...
Föstudagur, 26. ágúst 2011
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við líkama minn eins og hann er
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
Síðustu tuttugu ár eða svo hef ég glímt og unnið í að halda blessuðum skrokkinum í standi með mis góðum árangri. Læknavísinin hafa lítið hjálpað og flestar leiðir sem ég hef farið teljast óhefðbundnar.
Ég tel að þessi yndislegi gigtarskratti hafi verið farinn að búa um sig hjá mér ansi snemma, ég man þegar ég byrjaði í frystihúsinu 15 ára, þá fór ég að safna bólgum sem tóku sér bólfestu og vilja hvergi annars staðar vera. Ég veit að ég er skemmtileg en common.
Eftir fæðingu minna yndislegu barna fokkaðist allt upp í kerfinu og ég fékk greininguna vefjagigt og festumein, segir engun neitt sem þekkja ekki til. Ráð læknisins voru að hætta að láta krakkana sofa upp í og koma mér form, sem ég hef unnið samviskusamlega í síðustu 10 ár. Ætli hann segi mér að láta kallinn ekki koma upp í ef ég fer til hans núna því erfiðast fyrir vefjagigtarfólk er að ná djúpum svefni og vöðvaslökun.
Suma daga gengur betur en aðra að takast á við það að hafa ekki kraftinn til að framkvæma það sem hugann langar að gera. Þá er ég ekki að tala um stórafrek heldur bara að taka t.d. til í geymslunni, prjónað og saumað eða gert eitthvað með höndunum án gargandi verkja eða halda garðinum sómasamlegum. Hvað þá að láta sig dreyma um að geta unnið fulla vinnu eins og venjulegt fólk, ekki veitti manni af svona á síðustu og verstu.
Aldrei hef ég látið meta mig til örorku, ekki haft stoltið í það en hvað kallast það þegar fólk hefur ekki getuna til að vinna fulla vinnu.
Dögunum mínum líki ég stundum við trukkadaga og suma daga er eins og litli trukkurinn hafi keyrt yfir skrokkinn minn (og sálartetrið með) og svo koma aðrir þar sem stóri trukkurinn hefur verið á ferð. Og alltaf er þessi bévaði trukkur á ferðinni með tilheyrandi stífleika og óþægindum. Meira að segja á nóttunni. Þegar maður vaknar eiga vöðvar að vera slakir og mjúkir en ekki spenntir og stífir eins og þeir séu að fara að búa sig undir að flýja undan ljóni.
Í sumarfrí á maður að slaka á, safna orku og hlaða batterín en trukkarnir mæta hvort sem ég er í rólegheitum heima við eða að brasa út og suður og gefa engin grið.
Síðustu ár á ég nokkra daga minningu um það þegar trukkurinn fór í frí. Það var eftir 10 daga dvöl í jóganáminu mínu. Þá gerðum við jógaæfingar að lágmarki fjóra tíma á dag, borðuðum grænmetisfæði og iðkuðum slökun og hugleiðslu og vorum án áreitis frá umhverfinu.
Eftir nokkra daga úti í lífinu byrjuðu trukkarnir að rúnta, fyrst þeir litlu og svo kom sá stóri á endanum líka.
Ekki vil ég setjast að ein í óbyggðum, gera jóga í fjóra tíma á dag og borða grænmetisfæði til að minnka verkina og óþægindin. Ég vil taka þátt í lífinu. Jógað og mataræðið er þó það sem helst hefur fleytt mér í gegnum erfiða daga og í að minnka einkenni.
Alla þessa trukkadaga ber maður ekki á torg heldur brasar og bröltir með þá á bakinu, reynir að skerpa á einhverju í mataræðinu, hreyfa sig meira eða öðruvísi, standa upp í vinnunni sem oftast því kyrrstaðan er eitur, vinna í hugarfarinu til að komast í gegnum trukkadagana án þess að garga á samferðafólk.
Ekki sést á útlitinu að trukkur hafi verið á ferð, þeir skilja ekki eftir dekkjaför á bakinu en þeir hjakka nú oft mest þar en sturta hlassinu líka víðar og sjúa orkuna út. Svo maður er sætur og hress, alltaf að brasa svo mikið og bara gaman. Það er viðhorfið sem ég valdi að velja því án þess að velja að halda áfram að vinna í að minnka trukkana gæti ég bara lagst út á götu og látið einn alvöru keyra yfir mig. Auðvitað sest ég stundum niður og grenja svolítið en rétti svo úr kútnum, skerpi á æðruleysinu, sníð mér stakk eftir vexti, vinn í að róa hugann, fæ mér rólega göngu og slaka á.
Ég hef bara átt þessa trukka út af fyrir mig og hitti svosem ekki margt vefjagigtarfólk til að ræða um hvað það er að glíma við. Þó leið mér voða vel þegar ég las inni á vefjagigt.is að ég er ekki ein og þetta er ekki aumingjaskapur. Svo hitti ég konu í fyrra sem er að glíma við það sama. Vinnur í vinnunni sinni og vinnur í mataræðinu og hinu og þessu en eins og hún sagði "Það er sama hvort ég er að brasa mikið eða lítið yfirleitt líður mér eins og það hafi keyrt yfir mig valtari".
Í dag er stóri trukkurinn á ferð og vinur hans með. Sá stóri kemur alltaf þegar ég byrja í vinnunni, byrja í rútínunni allri saman. Samt hef ég verið að passa mataræðið vel, byrjuð í jóga sem á að slaka og losa um en stóð í eldhúsinu í nokkra tíma í gær og eldaði afmælismat fyrir fjölskylduna. Við þannig athafnir kemur helvítið með tvo trukka.
Ég ætla að taka þeim með æðruleysinu, láta renna í bað og mýkja mig upp, setja á mig rakamaska til að fríska þreytta andlitið og takast á við næstu daga með bros á vör og í hjarta. Vona trukkarnir fari bara í vegagerð eða eitthvað.
Góða trukkalausa helgi
Athugasemdir
Þú átt alla mína samúð Solla mín, þú átt líka hrós skilið fyrir það hvað þú ert búin að leggja mikið á þig við að halda skrokknum í lagi.
Áslaug (IP-tala skráð) 1.9.2011 kl. 16:22
Takk Áslaug, það er annað hvort að berjast áfram eða leggjast með tærnar upp í loft. Ég nenni því ekki.
Solla (IP-tala skráð) 1.9.2011 kl. 19:13
Þú ert baráttukona systir góð og ég er stoltur af því að þú skulir sigla með stefnið upp í veðrið og ulla á þessa trukka sem eru alltaf að hrjá þig. Í næstu hugleiðslu skaltu ímynda þér að þeir séu olíulausir og komist ekki úr stað mikið lengur.
Sigurjón Friðriksson (IP-tala skráð) 4.9.2011 kl. 22:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.