Vindfell
Sunnudagur, 14. ágúst 2011
Ekki hefur farið mikið fyrir fjallgöngunum hjá okkur Frikka í sumar. Þegar vel hefur viðrað til þess að ganga höfum við yfirleitt verið að fara í einhverja íþróttaferðina eða upptekin á annan hátt. Við drifum okkur þó á Vindfell sl. föstudag og það var mjög gaman. Vorum ekki alveg ákveðin hvort við ætluðum alla leið en þegar Frikki er lagður af stað í mission er fátt sem fær hann stöðvað.
Gangan upp með Innri Vallá er ótrúlega falleg, allir þessir fossar og djúpu gil í ekki stærri á. Ótrúlegt að hafa ekki gengið þetta fyrr. Sauðdalurinn er drjúgur og í stað þess að feta okkur inn með ánni þá fórum við upp í hlíðar Kumlafells og þaðan að rótum Vindfells. Kumlafell lítur út eins og píramíti en þegar innar er komið í dalinn tekur við heilmikið klettabelti og fyrir neðan urð og grjót. Við rætur Vindfells er flott útsýni og sjást bæði fjöllin í Jafnadal og Stöðvardal. Jökultindurinn var hulinn þoku en tilkomumikið að sjá fjöllin sem eru fyrir ofan Einbúann frá þessari hlið, þessi gráu fjöll sem eru eins og úr annarri veröld. Sandfellið er tilkomumikið, samt fannst mér flottara að sjá það frá Lambaskarðinu sem við gengum að fyrir stuttu.
Á toppnum er mjög tilkomumikið að horfa út eftir Miðfelli og Hákarlshaus og sjá bakhliðina á Sauðabólstindi. Það er ekki eins létt að ganga tind af tindi yfir þessi þrjú fjöll eins og sýnist neðan af götu og það er jú alltaf þannig að fjöllin breytast og ýmislegt kemur í ljós þegar maður kemst í návígi við þau.
Vindfell er 700m hátt en ótrúlega flott og gott úsýni til allra átta. Myndir sýna víst aldrei alla þá upplifun sem fylgir því að leggja eitt fjall að velli eða standa á toppnum (ég sit nú oftast því hnén verða eitthvað svo lin) og verða svo lítill í allri þessari fegurð sem landið okkar býður upp á.
Niðurgangan var ótrúlega drjúg líka og mjúk enda fórum við aðra leið niður og gengum miðjan dalinn. Á niðurleið kemur kannski best í ljós í hve góðu formi maður er, það var rosa mikill léttir þegar við komum loks að bílnum og gátum sest. Ljóst að spýta þarf í lófana. Ef maður þolir ekki fjóra tíma hmmm.
Maður þarf heldur ekki að leita langt yfir skammt. Nú er Sauðabólstindur næst á dagksrá og við ætlum pabbaleið upp á hann, þ.e. upp með Vallám, upp á Hellufjall og þaðan upp á topp. Lambafell var víst líka á skránni ásamt Mosfelli og að hringganga Álftafell (ef það er hægt :)) og nú óskum við eftir mildu haustveðri langt fram undir jól.
Hér eru smá sýnishorn úr göngunni:
Athugasemdir
Hefði viljað vera þarna á ferðinni með ykkur.
Sjonni (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 00:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.