Unglingalandsmót UMFÍ

Já nú erum við líklega og vonandi orðnir áskrifendur að Unglingalandsmótunum sem fram fara hverja verslunarmannahelgi víðs vegar um landið.  Í ár var mótið á Egilsstöðum og því hæg heimatökin. Sumarhátíðin var upphitun og þessar fáu farandæfingar sumarsins lögðu tóninn líka.  Dýrunn er enn of ung en kemur sterk inn á næsta ári.  Friðrik fór gallvaskur í 80m hlaup, 200m, 600m, 100m boðhlaup og spjótkast. Einnig kom hann inn sem varamaður með liðsfélögum sínum úr boltanum og spilaði undir merkjum Vals á Reyðarfirði.

Kappinn komst í úrslit í 80m og var um miðbik í hinum greinunum. Liðið hans í boltanum var í þriðja sæti svo það kom einn peningur með heim og það er nú frekar skemmtilegt.  Hann var mjög sáttur en langar helst að flytja til Egilsstaða til að fara að æfa frjálsar. Ég get kennt sálfræði við Menntaskólann þar sem ég er jú komin með framhaldsskólaréttindi og pabbi hans getur áfram verið hjá Eimskip. Ekki hafa foreldrarnir samþykkt þennan ráðahag. 

Á setningarathöfninni hljóp hann ásamt krökkum úr aðildarfélögum ÚÍA með kyndlaberanum sem kom keyrandi inn á svæðið á motorcross hjóli. Það var mjög spennandi, en verst að vera ekki í Súlugalla. Hann er víst enginn almennilegur til svo hann var bara í Fjarðarbyggðarpeysunni. 

Við gistum á tjaldsvæðinu og vorum tvær nætur. Planið var að vera alveg fram á mánudag en á sunnudag tók að hvessa og okkur þótti veðurútlit ekki spennandi.  Eftir kvöldverð fóru feðgarnir strax af stað heim en við skvísurnar biðum eftir skemmtidagskránni. Við biðum í rúman klukkutíma og hlustuðum síðan á þrjú lög með Bjartmari og gáfumst svo upp. Dýrunn nennti engan veginn að standa lengur og hlusta á raddlausan kall. Þetta var hálf lamað, ekki eins mikið stuð og á Jónsa og Í svörtum fötum kvöldið áður.  Við slepptum því flugeldasýningunni sem var víst rosa flott en það er ekki hægt að gera allt. Við hlustuðum á beina útsendingu frá Þjóðhátíð í Eyjum og það voru ekki slor tónlistarmenn á ferð.  

Þetta var rosa flott mót og gekk vel í alla staði. Keppt var í ótrúlega mörgum greinum út um allan bæ. Við vorum eins og gefur að skilja á Vilhjálmsvelli og svo skutlaðist ég á milli atriða yfir í Fellabæ í boltann. Jósef vann alla helgina við að skrá úrslit. Hann er svo góður í því. Svo gerðist ég sjálfboðaliði á sunnudag og stóð ásamt fleirum á svæðinu til að gæta þess að fólk færi ekki yfir hlaupabrautirnar meðan hlaupin fóru fram. Ótrúlegt hvað menn eru duglegir að stytta sér leið og bera ekki virðingu fyrir keppendum í keppni. 

Við náðum ekki að fara í alla afþreyinguna sem í boði var, t.d. langaði mig í göngu um Selskóg en þá var Frikki að keppa, einnig var boðið upp á danskennslu á sunnudag en einhverra hluta vegna voru börnin ekki í stuði. Við fórum hins vegar á spurningakeppni sem kölluð var Innsvar. Þar voru tveir í liði og þetta virkar eins og pub quis. Við Frikki vorum saman og Dýrunn og Jósef. Liðin hafa verið eitthvað um 20 og Jósef og Dýrunn fóru með sigur að hólmi. Þau fengu nokkur búnt af Kit kat í verðlaun og við höfum maulað það hér síðustu daga.

Þvottavélin snýst sem aldrei fyrr og á morgun leggjum við í hann norður á bóginn. Fyrst til Akureyrar og svo á Siglufjörð þar sem Dýrunn ætlar að keppa á Pæjumóti. Frikki tekur sér frí frá Króknum og ætlar að njóta þess að vera í fríi eina útilegu. 

Hér eru tvær myndir af kappanum um helgina:

img_3524.jpg img_3533.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aldeilis flott hjá ykkur og börnin standa sig eins og hetjur.

Sigurjón Snær (IP-tala skráð) 3.8.2011 kl. 13:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband