Herdeildarkokkurinn

Það er oft haft á orði hér á bæ sérstaklega þegar ég elda súpur að ég sé hálfgerður herdeildarkokkur því yfirleitt endast þær vel og lengi jafnvel þó slatti sé frystur líka. 

Ég fékk því flott tækifæri í síðustu viku að láta reyna á herdeildareldamennskuna þegar listahópur frá listaháskóla í London kom til Stöðvarfjarðar í tengslum við verkefnið þeirra Rósu og Zdenek í Frystihúsinu. Þau voru 17 og svo voru nokkrir vinir líka sem eru að aðstoða við verkefnið.  Ég fór á stúfana og leitaði eftir styrkjum og fékk úr því hádegisverð 2x á Kaffi Steini og svo kaffitíma á Brekkunni seinni daginn þeirra.  Ég eldaði sem sagt þrjá kvöldverði og þjóðlegt skyldi það vera. 

Fyrsta kvöldið var það fiskisúpa Jónu Hall sem sló svo rækilega í gegn þegar við vorum með þeim í hjónaballsnefnd. Með súpunni var fjallagrasabrauð úr grösum sem ég týndi á leið minni á Lambaskarð á sunnudag, Sólrúnarbrauð  og rabarbarapaj ala Rósa í eftirrétt.  Næsta kvöld voru það villi og bláberja krydduð lambalæri ala Maja og guðdómleg súkkulaðikaka ala Þóra og síðasta kvöldið var karrýfiskur á hrísgjónabeði með íslenskum villi og búðasveppum. Fiskinn og kjötið fengum við gefins og aðeins meðlæti og sollis sem þurfti að kaupa eða sækja í næstu eldhús eða garða Wink

 Svona eldamennska kallar á skipulag því við þurfum líka að vera á tíma. Það var pínu sprettur á miðvikudag því dagskráin var svo þétt hjá hópnum, fyrst ráðstefna á Kaffi Steini, svo klukkutími í mat áður en dagskráin hófst í Frystihúsinu. Svo var ein sem borðaði fisk en ekki kjöt og ein sem borðar hvorugt og þá var skellt í smá grænmetisgums handa þeim.  Margar hendur hjálpuðu og það var yndislegt að fá Maju í eldhúsið á miðvikudeginum og svo kom Þóra á fimmtudag og hjálpaði mér með fiskinn og vaskaði upp. Þá var skrokksi minn orðinn pínu þreyttur og hún var kærkominn stormsveipur í eldhúsið.   

Á föstudag sat ég svo og sólaði mig fyrir utan gallerýið eftir frágang og þrif því ég hafði jú lofað Sólrúnu að sjá um það líka þessa viku.  Eitthvað hafa ferðamennirnir fundið á sér að það væri mikið um að vera í Skuld því þeir voru lítið á ferðinni og ég sat því í sólinni og heklaði eins og ömmur gera. Ég seldi því lítið þar.  

Ég veit að ég gæti ekki unnið sem kokkur nema hafa her manns til að gera hlutina fyrir mig en þetta var rosalega skemmtilegt og ég hlakka til að sjá myndir af þessu öllu.  

Solveig merkir "sú sem er máttug innanhúss" og ég fékk svo sannarlega að vera það þessa daga.  Það var ekki leiðinlegt Tounge


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband