Sú var tíðin...

... að gula röðin á Sumarhátíð ÚÍA sló öllum öðrum röðum út í skrúðgöngunni. Allir sem vettlingi gátu valdið skelltu sér í skrúðgönguna, ungir sem aldnir.  Keppendur okkar voru margir og mikil stemmning. Fólk mætti snemma á föstudegi til að tjalda á rétta staðnum og það var ótrúlega spennandi að versla í stóra hvíta tjaldinu. 

Í ár kepptu fjórir fulltrúar Súlunnar á Sumarhátíð, þrír komu heim með verðlaunapening og sá yngsti þátttökupening. 

Allt veltur þetta á dugnaði foreldra barnanna og forsvarsmanna ungmennafélagsins. Þegar mesta gróskan var hér unnu ákveðnir foreldrar lon og don við að halda þessu starfi gangandi. Það skilaði heilmiklum árangri og ánægjulegt er að sjá að þeir einstaklingar sem voru framarlega á unga aldri hafa hvatt börnin sín áfram og það sást á áragrinum. Lillý með dömurnar sínar á Egs, Dandý með sína dömu, strákarnir hennar Hrefnu, Rósa Guðný með gaurana sína í boltanum,  stelpurnar hennar Halldóru Bjarkar og Dóra kom frá Djúpavogi með sína stráka og fríðan hóp keppanda enda öflugt starf þar í gangi hjá Neista.  

Ég vona að við getum náð upp stemmningu hér hjá krökkunum okkar og þó það verði aldrei aftur eins og í "gamla daga" þá er þetta svo skemmtilegt og fyllilega þess virði meðan krakkarnir hafa gaman af. Þó maður þurfi að norpa í áhorfendastúkunni í nokkurra gráðu hita er það bara gaman því allir eru glaðir og ánægðir og að hvetja krakkana áfram. Forvörnin felst ekki bara í því að stunda íþróttirnar heldur að hafa stuðning foreldranna í því líka.  Flestir þessara ofantöldu foreldra stóðu vaktina alla helgina og mældu, skráðu, tóku tíma og gerðu það sem gera þurfti til að dæmið gengi upp.  Jósef sá um okkar hluta og var í skráningu báða hlutana og ég sinnti börnunum.  

Áfram Súlan 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var alveg dásamlegt að droppa á Vilhjálmsvöllinn og draga í sig gömlu stemminguna, hitta fólk og hafa gaman. Hátíðin er auðvitað ekki svipur hjá sjón miðað við fyrri tíð en dóttur minni fannst æðislegt og hefði helst viljað taka þátt í öllum íþróttagreinunum.  Hún fékk óvænt að hlaupa 600 metrana og marði 2. sætið :-)  Var skráð í keppni fyrir Súluna við rásmarkið (þar sem það var móðir hennar en ekki faðir sem skráði hana til leiks!).  Verð að segja að hún hefur mun huggulegri hlaupastíl en ég, sem var alltaf eins og gíraffi á hlaupabrautinni!

Sá krakkana þína keppa - þau stóðu sig vel og héldu uppi heiðri félagsins.   Áfram Súlan! - að eilífu.

Hallan (IP-tala skráð) 18.7.2011 kl. 14:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband