Júnímánuður
Mánudagur, 4. júlí 2011
Já tíminn líður trúðu mér. Allt í einu er kominn júlí og kerlan ekkert staðið við fögur fyrirheit í skrifum. Júní hefur svo sannarlega verið annasamur og familían heldur betur á faraldsfæti.
Fyrst ber að nefna rúnt fjölskyldunnar til Rvk. og þaðan til Þingeyrar og svo til Akureyrar. Í Reykjavík stöldruðum við einn dag og afrekuðum að fara á Hamborgarafabrikkuna og snæða gómsæta borgara þar. Dýrunn vildi komast í búðir og henni dugði að fara í Hagkaup í Smáralind þar sem hún keypti sé leggins og sokka. Annað fannst henni of dýrt.
Við brunuðum til Þingeyrar í samfloti með Sóla, Hafdísi, Petreu Mist, mömmu og Hildi. Fallegt er á vestfjörðum en mikið skelfing eru firðirnir langir maður lifandi. Samt er búið að þvera einn fjörð og malbika síðan ég fór Djúpið síðast. Við dvöldum öll saman í notalegum sumarbústað og á hvítasunnudag fermdist Agnes. Flott og falleg var hún skvísan og veislan á eftir mjög góð, með mat eldaðan á marukka pönnum (veit ekki alveg hvort heitið er rétt) og að sjálfsögðu stóðu allir á blístri. Við vorum í rólegheitum á mánudag og keyrðum svo í átt til Akureyrar á þriðjudag. Öll fyrirheit um göngur okkar Friðriks urðu að engu því lofthiti var mjög lár og hryssingslegt veður. Við komumst til Akureyrar og dvöldum þar í nokkra daga, eiginlega að gera ekki neitt. Krakkarnir skoðuðu herlegheitin niðri í bæ á 17. júní en ég valdi að vera innandyra enda heilar 5 gráður á mælinum um miðjan dag.
Heim komum við á sunnudegi og vikuna 20.-23. vann ég á salthúsmarkaðnum. Ákvað að sýna smá samfélagslega samheldni og legg mitt af mörkum í nokkra daga í sumar. Föstudaginn 24. skelltum við krakkarnir okkur í skemmtilega göngu um Kambanesið í leiðsögn Söru með góðum hóp. Dýrunn keppti svo á fótboltamóti í Fellabæ á lau og sun og dvöldum við í Fögruhlíð aðfararnótt laugardags. Það var mikið fjör þó það væri svolítið svalt. Sem betur fer kom rigningin ekki fyrr en í síðasta leik dömunnar.
Þrjá daga höfðum við svo heima og þá var þvotturinn þveginn sem aldrei fyrr og snemma á miðvikudagsmorgun þann 29. brunuðum við til Akureyrar á N1 mót hjá Friðrik. Öllum vetrarfatnaði var pakkað niður en öllum að óvörum kom sumar og sól og allir voru vel útiteknir eða með netta bóndabrúnku eftir mótið. Ég var búin að útvega mér forláta regnkápu sem ég þurfti svo ekkert að nota. Well, sumarhátíðin verður um næstu helgi og hún fer alveg örugglega með í þá ferð og kraftgallinn svo veðrið verði skaplegt.
Orkan fór mest í N1 mótið, Dýrunn dvaldi hjá Eddu sinni og ég skellti mér á skrall með Dóru svilkonu og tveimur vinkonum úr kennsluréttindanáminu á laugardagskvöld. Við snæddum saman góðan mat, drukkum góð vín með og höfðum það notalegt í heita pottinum.
Árangur mótsins var mjög ásættanlegur og ánægjulegra að horfa á gaurana keppa við verðuga andstæðinga í stað þess að vera jarðaðir í hverjum leik eftir annan eins og oft áður. Frikka lið lenti í 5. sæti. D liðið okkar hreppti gull og það var þvílík adrenalínbomba allan leikinn og svo vító þegar Fjarðabyggð vann í bráðabana, ó mæ god. Þriðja liðið var frekar neðarlega. Allir skemmtu sér hið besta, liðsheild liðsmanna og foreldra var mjög góð og stemmningin frábær.
Við skelltum okkur loksins í Jarðböðin við Mývatn og dvöldum í þeim í ca klukkutíma. Notalegt, já en ekki 5000 kr virði finnst mér miðað við þrengsli í búningsklefa, volgar sturtur og illa lyktandi klósett sem ég fór á. Ekki séns að versla í teríunni vegna verðlags og þó mannskapurinn væri orðinn svangur brunuðum við í Egs. og snæddum þar.
Já sumarhátíðin um næstu helgi og mér skilst að ormarnir mínir ætli að keppa, einn fótboltadagur hjá Dýrunn í vikunni, æfingar á Reyðarfirði hjá þeim báðum mán og þrið og þrír dagar hjá mér á Salthúsmarkaðnum. Ullarfötin komin í þvott því þar er kalt og rakt. Enginn leti og ómennska, bara gaman.
Skrokksi minn þolir samt ekki alveg svona miklar útivistir, stöður, kulda og vosbúð en gamanið af þessu brasi vegur upp á móti verkjum og ónotum. Göngur eru því á dagskrá til að auka blóðflæðið og koma kerfinu betur í gang.
Nú væri óskandi að þokunni og rakanum létti hér á bæ svo hægt sé að slá grasið og að málararnir hjá mömmu nái að klára að mála húsið hennar.
Yfir og út...
Heima vorum við síðan í
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.