Kirtlataka og myndataka í göngunum !
Fimmtudagur, 12. maí 2011
Segðu sííííís. Já loksins er búið að taka mynd af mér í göngunum og ég gleymdi að brosa !!!!! En þar sem ég er sérdeilis löghlýðinn borgari eins og þið vitið og fer aldrei upp yfir löglegan hámarkshraða og alls ekki í göngunum þá á ég ekki heiðurinn að þessari myndatöku. Í morguntraffíkinni var einn bílstjórinn aðeins of leiður á að keyra bara á 70 og tók fram úr bílnum á eftir mér og svo mér akkúrat þegar við fórum framhjá myndavélinni. Ég fékk nett adrenalín kikk og snöggreiddist. Svo brunaði ég upp að afturendanum á honum til að ná númerinu. Sá að þetta var bíll merktur Fjarðabyggð svo eftirleikurinn var auðveldur. Jósef fór í málið og bílstjórinn fannst og baðst afsökunar á framferði sínu. Þar sem við þekkjum hann ágætlega verður hann hér eftir nefndur "gangnadólgurinn" og fast skotið næst þegar við hittumst.
Við náðum á sjúkrahúsið akkúrat á mínútunni og mín innbyggða ofurstundvísi var farin að skjálfa því ég vil ekki koma á mínútunni heldur aðeins fyrir áætlaðan tíma. Nú svo tók auðvitað við bið í um klukkutíma svo ég hefði ekki þurft að stressast neitt. Það var eitt tveggja ára Séð og heyrt blað á biðstofunni og þriggja ára Nýtt líf eða eitthvað svoleiðis ásamt misöldruðum bæklingum. Ég fræddist heilmikið.
Þegar loksins kom að dömunni var henni skverað inn á skurðstofu og svæfð med det samme. Ég varð auðvitað að fara út þegar hún var sofnuð og ég fullvissuð um að hún væri í mjög færum og góðum höndum. Sem ég auðvitað vissi og ég fékk ekki neitt róandi.
Ég var svo sniðug að taka prjónana með mér og var rétt búin með þrjá eða fjóra hringi í munstrinu á erminni (á ermunum sem ég er að prjóna) þegar læknirinn kom og sagði að aðgerðin væri búin og allt hefði gengið vel. Kirtlarnir voru ekki stórir þannig að skurðurinn var ekki mjög djúpur. Það tók hana smá stund að vakna en hún varð fljótt hress, hafði fengið lyf við velgjunni að minni beiðni svo henni var ekkert óglatt.
Við fengum síðan að fara heim á leið upp úr þrjú og þá var að sjálfsögðu fyrsti ísinn keyptur. Þvílíkt sældarlíf, ég keypti svo meira í Krónunni og tók út verkjalyfið sem hún á að fá næstu daga.
Hún er nokkuð hress en við taka rólegheit og Aloe vera í vatni næstu 10 daga og enginn hamagangur næstu tvær vikur. Hún getur því ekki tekið þátt í ýmsu á vordögunum t.d. Balahlaupinu og verður að fara varlega í skógræktarvinnunni. Hún missir af einu fótboltamóti, að spila á vortónleikunum, en svona er þetta og þegar upp er staðið þá verða lífsgæðin væntanlega meiri þegar hún verður búin að jafna sig.
Yfir og út...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.