Jólapistill 2010

Heil og sæl á aðventu á því herrans ári 2010

Þá er frúin sest við skriftir enda búin að skrifa á jólakortin sem fóru póstleiðina þetta árið að jólapistillinn biði hér.                                            Árið sem er að líða var viðburðaríkt að venju og ótrúlega fljótt að líða líka. Ég veit að fleiri kannast við þá tilfinningu.

Í upphafi árs skelltu hjónakornin sér til höfuðborgarinnar og fögnuðu með Herbalife á Íslandi í galapartýi á Hótel Borg góðum árangri ársins á undan. Við fögnuðum líka 90 ára afmæli Friðriks í sama mánuði á Akureyri. 

Kerlan vann sér inn flugferð hjá Herbalife og brá sér til Noregs í byrjun febrúar og átti þar góða þjálfunarhelgi með samstarfsfólki.  Stuttu síðar skreið sama kerling upp á fimmtugsaldurinn og hélt upp á það með pompi og prakt í flottum "veislusal" sem eitt sinn var fiskvinnslusalur. Þar mætti margt fólk og það var fjör fram eftir nóttu. Fyrir afmælispening keypti kerlan sér gönguskó og innanundirfatnað til að vera klár fyrir fjöll sumarsins. 

Stuttu síðar kom afmælisdagur Dýrunnar og hún þá orðin níu ára.  Henni liggur aðeins á að stækka þessari elsku og það segir stundum til sín í skrokknum.

Í upphafi sumars fóru hjónin á bænum til Kanada með samstarfsfólki í grunnskólanum hér og á Fáskrúðsfirði. Fleiri skólar voru með í för.  Leiðin lá til Winnipeg og þar skoðuðum við skóla og ýmislegt fleira. Við fórum í tvær dagsferðir, aðra til Gimli og Hecla Island og svo til Norður Dakóda. Hvor um sig var mjög góð. Það var virkilega gaman að koma á þessar slóðir og fá fræðslu um líf Íslendinga þegar þeir voru að nema þar land. Það var ekki alltaf dans á rósum.  Börnin voru í góðu yfirlæti hjá ættmennum, Dýrunn á Akureyri og Friðrik á Stf.  Fótboltaprógrammið hjá honum var stíft og hann komst ekki frá.  Dýrunn skellti sér í hjólatúr með frænku sinni sem endaði uppi á spítala og út kom hún með sjö spor í hökunni.  Ætlaði aldrei aftur að hjóla en gleymdi því svo sem betur fer. 

Í gönguvikunni í Fjarðabyggð var stefnan að ganga á fjöllin fimm. Stundum fer eitthvað öðruvísi en ætlað er og tvö urðu útundan þetta árið.  Dýrunn kom með á Svartafell og við Friðrik örkuðum á Goðaborg í Norðfirði og Kistufell í Reyðarfirði.  Þar var þoka mikil og hálfgerð slydda og varð móðirin hrædd um að sonurinn yrði úti þarna á fjallinu því honum var svo kalt og ekki gátum við farið á undan niður, svo mikil var þokan. Á myndinni sést hvimg_2312_1048573.jpgar  við Gurra reynum að skýla honum á milli okkar. Þegar niður var komið var kuldinn fljótt gleymdur og þetta hið mesta ævintýri.  Þó kerlan hafi ekki farið á öll fimm í þessari lotu átti hún fjögur inni frá því í fyrra og fær því viðurkenningu fyrir það og Friðrik með sín þrjú fjöll. Við erum því komin með titilinn "Fjallagarpar Fjarðabyggðar". Ekki slæmt.  Á næsta ári stefnir Dýrunn á að koma með okkur á Hádegisfjall.  Við ætlum að æfa okkur á minni fjöllum meðan hún nær upp þoli og styrk. Friðrik er eins og fjallageit og þetta liggur aðeins betur fyrir honum en þeirri "gömlu"(mömmunni).  Einhverra hluta vegna hefur ekki tekist að vekja upp áhuga bóndans á fjallgöngum en maður veit aldrei hvað gerist.   Það eru mörg fjöll komin á markmiðalistann fyrir næsta ár hjá Friðrik og ljóst að móðirin þarf að vinna í að halda forminu góðu............ nú og á framtíðar framtíðar plönunum hans eru það Kilmanjaro og Everest. Ég held ég passi á Everest, hitt gæti gengið. 

Í júní dvaldi fjölskyldan í nokkra daga á Akureyri. Friðrik kepptiimg_2340.jpg á N1 mótinu í fyrsta skipti. Það gekk svona upp og ofan en aðallega niður á við. Þeir áttu þó góða spretti og voru með sterkan stuðningsmannahóp foreldra sem voru samt mjög prúðir.  Við héldum líka upp á áttræðisafmæli Dýrunnar og 90 ára afmæli Friðriks í annað sinn. Þar var mikið fjör. Barnabörnin spiluðu saman á hljóðfærin sín eitt af uppáhalds lagi afa gamla og svo var sungið og trallað fram á rauða nótt. 

Í júlí skellti kerlan sér í þriðju utanlandsferðina á þessu ári. Það var að sjálfsögðu Herbalifeferð og í þetta sinn fór með henni hópur af spenntum dreifingaraðilum sem í framhaldinu gaf af sér vöxt í viðskiptunum hérlendis og erlendis.  Stokkhólmur var staðurinn og ráðstefnan í Globen.  Við vorum tvær saman sem gistum hjá vinkonu minni og þar sem stoppið var stutt og pökkuð dagskrá alla daga sáum við lítið af borginni. Eina HM búð heimsóttum við í miðbænum en ekki mikið meira en út um lestargluggana sáum við fallegt landslag.

Í byrjun ágúst keppti Friðrik á Króksmóti og líklega í síðasta skipti.  Þetta var okkar fjórða Króksmót og ljúft að venju.  Gráni gamli fékk ekki að fara í fleiri ferðalög og bíður þess að enda í brotajárni. Við vorum svo heppin að Sjonni bróðir og Stína lánuðu okkur vagninn sinn og við vorum eins og blóm í eggi þessa helgi. Þetta var eina útilega sumarsins hjá okkur saman en Jósef og krakkarnir skelltu sér í Ásbyrgi meðan frúin skrapp til Stokkhólms.

Á haustmánuðum skellti kerlan sér í nám frá Háskólanum á Akureyri að sækja sér kennsluréttindi, kominn tími til eftir 12 ára kennslu. Hún hefur brunað Norður í lok hvers mánaðar, í alls fjögur skipti og setið fyrirlestra. Prófin gat hún tekið á Reyðarfirði.  Þetta tók nett á gigtarskrokkinn en hafðist allt að lokum og eftir áramót er einungis vettvangsnám. Það verður tekið á Djúpavogi og verður spennandi verkefni.

Við hjónin syngjum enn í kirkjukórnum og höfum sungið nokkrar messur og héldum tónleika í vor.  Í byrjun okt. lagði kórinn land undir fót og við sungum við útvarpsmessu í Bústaðakirkju. Það gekk mjög vel og var skemmtilegt verkefni.  Þegar þetta er skrifað eru aðventutónleikar afstaðnir og jóladagskráin framundan.  Þetta er alltaf gaman.

Í nóvember fögnuðum við útkomu bókar með ljóðum Sigurjóns Jónssonar afa míns frá Snæhvammi. Bókin heitir Jörðin kallar á börnin sín og í henni er ásamt ljóðunum, ritgerð um afa eftir Sólmund bróður. Teitið var haldið í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík og það var yndisleg stund.

Börnin una sér vel við leik og störf. Friðrik skipti yfir á gítar í tónlistarskólanum og það nám sækist vel. Svo eru það samæfingar á Reyðarfirði 1x í viku og þess á milli fer hann í íþróttahúsið. Dýrunn hélt áfram á píanó, æfir reyndar ekki fimleika í vetur en er dugleg að sækja það sem í boði er í íþróttahúsinu og fer í félagsmiðstöðina í hverri viku. Þeim gengur vel í skólanum og á síðunni www.stodvarfjordur.is er ýmislegt að sjá úr skólastarfinu. Þau áttu bæði snilldarleik á árshátíð skólans nú í nóvember og m.a. var frumflutt leikrit eftir Dýrunni. Það var mikil upphefð. 

Nú eru þau komin í jólafrí og vita ekki alveg hvað þau eiga af sér að gera þennan fyrsta frídag. Úti blæs vindurinn hressilega svo það hentar ekki að fara í einhverja útivist. Ætli mamman finni ekki upp á einhverju stússi fyrir þau. 

Á morgun fer fjölskyldan í Héraðið og verslar inn fyrir jólin. Frúin fær jafnframt jólaklippinguna. Þetta ár erum við hjónin í Hjónaballsnefnd og kollurinn er fullur af skemmtilegum hugmyndum hvað það varðar. Það fer fram þann 30. des. í Kaupfélagshúsinu sem nú er að breytast í kaffihús með veislusal og væntanlegu gistihúsi. Þökk sé nokkrum dugnaðarforkum. Áramótunum verjum við líklega hér heima (þrátt fyrir öflug mótmæli barnanna) en það er ekki alltaf hægt að gera svo öllum líki.

Þó hér hafi verið tæpt á atburðum ársins þá gleymdist helllingur enda efni í heila bók. Við hlökkum til næsta árs enda næg spennandi verkefni framundan sem verður gaman að greina frá þá. 

Sendum ykkur enn og aftur bestu óskir um gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár ! ! 

Solla, Jobbi, Friðrik og Dýrunn Smile Jósef jólabarn

 Friðrik og Dýrunn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband